Borhola Stjórn OR hyggst selja bréf Magma.
Borhola Stjórn OR hyggst selja bréf Magma. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að taka tilboði fjármálafyrirtækisins Landsbréfa í svonefnt Magma-skuldabréf sem OR eignaðist þegar kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy keypti hlut OR í HS Orku árið 2009. Verður tilboðið rætt í borgarráði í dag en borgin verður sem eigandi 94% hlutar í OR að samþykkja söluna. Á salan m.a. að þjóna þeim tilgangi að bæta lausafjárstöðu OR.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tók stjórn OR svonefndu kauptilboði „B“. Hljóðaði kauptilboð „A“ upp á 9.100 milljónir kr. og hefðu greiðslur skipst þannig að hinn 30. ágúst 2013 greiddust 3.003 milljónir og afgangurinn hinn 14. desember 2016, eða 6.097 milljónir kr. Í kauptilboði „B“ er fyrri greiðslan til Orkuveitunnar hærri, eða 5.160 milljónir hinn 30. ágúst 2013 en síðari greiðslan 3.440 milljónir hinn 14. desember 2016, alls 8.600 milljónir króna. Var seinna tilboðinu tekið.

Miðað við 120 krónur í dalnum

Er kveðið á um það í tilboðinu að gengi Bandaríkjadals sé ekki lægra en 120 kr., þ.e. miðgengi Seðlabankans, þegar fyrsta greiðsla kaupverðs á sér stað. Hafi t.d. dalur veikst gagnvart krónu um 10% skal heildarkaupverð lækka til jafns við það.

Skuldabréfið var upphaflega að fjárhæð 67.891.888 dalir, eða um 8,58 milljarðar á núverandi gengi, og er höfuðstóll bréfsins vísitölutengdur álverðsvísitölu. Það ber árlega 1,5% vexti frá 14. desember 2009 til lokagjalddaga hinn 14. desember 2016. Er skuldabréfið tryggt með veði í hinum seldu hlutabréfum í HS Orku.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins áætlar Íslandsbanki að núvirði bréfanna gæti legið á bilinu 6,7-7,6 ma. kr. en skv. HF Verðbréfum og Summu ehf., sem OR fékk einnig til að verðmeta bréfið, er verðmætið 6,1-7,6 milljarðar kr.

Þá kemur fram í verðmati bankans að gengi hlutabréfa í Alterra Power Corp., móðurfélagi Magma Energy, félagi Ross Beaty, í kauphöllinni í Toronto hafi farið lækkandi. Ljóst sé af ársreikningum félagsins að það geti að óbreyttu ekki staðið undir afborgunum af bréfinu. Benda sérfræðingar bankans á að Magma Energy geti aðeins fjármagnað afborganir af bréfinu á þrjá vegu.

Í fyrsta lagi með því að ráðstafa arðgreiðslum vegna hlutarins í HS Orku, en þær eru sagðar of lágar til að mæta afborgunum. Í öðru lagi með því að endurfjármagna skuldina, en það er talin ósennileg leið í ljósi þess að engin starfsemi er til staðar í Magma Energy, sem er skráð í Svíþjóð, og með hliðsjón af því að arðgreiðslur úr HS Orku séu litlar. Er því talið ólíklegt að utanaðkomandi aðili sýni áhuga á endurfjármögnun. Í þriðja lagi með því að sækja fjármögnun til móðurfélagsins, en sú leið er talin illfær í ljósi lækkandi gengis bréfa í því.

Hentar til stöðutöku

Greint mun frá því í verðmatinu að tenging höfuðstóls skuldabréfsins við þróun álverðs þýði að það henti fjárfestum sem hafa áhuga á að taka stöðu í hrávöru. Þá gætu samningar um sölu orku á Suðurnesjum aukið verðmæti HS Orku og þannig tryggt kaupendum skuldabréfsins arð.

Forsaga málsins er sú að stjórn OR ákvað á árinu 2007 að kaupa hlut í Hitaveitu Suðurnesja eftir að ríkið ákvað að selja hlut sinn þar. Samkeppniseftirlitið sagði kaupin brjóta í bága við lög og leiddi það ásamt efnahagshruninu til þess að borgin ákvað að selja hlutinn. Var tilboð Magma Energy talið það eina sem væri viðunandi. Gekk það út á að 3,7 milljarðar, eða 30% kaupverðsins, væru greiddir út í reiðufé og 70% með skuldabréfi sem kæmi til greiðslu eftir 7 ár, þ.e. 2016.

BENT Á ÁLVERÐIÐ

Telur tímann ekki réttan

Spurður út í kauptilboð Landsbréfa setur Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spurningarmerki við tímasetningu sölunnar á Magma-skuldabréfinu.

Rétt sé að selja skuldabréfið ef viðunandi verð fáist fyrir það en ýmislegt bendi til þess að nú sé ekki rétti tíminn fyrir slíka sölu. Verðmæti bréfsins ráðist að hluta til af álverði, sem sé nú mjög lágt. Þá sé verið að auka gjaldeyrisáhættu Orkuveitunnar með sölu umrædds bréfs, sem er í Bandaríkjadölum.

Þá bendir Kjartan á að við áhættumat bréfsins megi hafa í huga að verði það ekki greitt upp árið 2016, muni hin seldu hlutabréf ganga til eiganda bréfsins að nýju en hún muni engu að síður halda allri útborguninni, þ.e. 3,7 milljörðum króna. Margt bendi til að ráðlegra sé að bíða með sölu bréfsins á meðan deyfð sé yfir álmörkuðum, en að fara í hálfgerða hraksölu nú.