Þó Helgi Júlíus Óskarsson sé ekki starfandi tónlistarmaður hefur hann verið iðinn við útgáfu síðastu ár. Hann hefur ekki haldið sig við eina tónlistarstefnu á skífunum, á síðustu plötu hans var reggí, þar áður komu út tvær þjóðlagapoppskífur og á þeirri sem hér er blússkotin tónlist.
Blúsinn er einfalt tónlistarform á yfirborðinu, en getur verið snúið að skila honum rétt frá sér. Því einfaldara sem formið er eru kröfurnar til flytjendanna nefnilega meiri, enda má lítið útaf bera til þess að niðurstaðan verði vélræn og venjuleg. Tær tilfinning verður að vera til staðar, söngvarinn að syngja sem hann sæki orðin djúpt í sálu sér og hljóðfæraleikarar einnig að spila frá hjartanu. Það gengur býsna vel á þessari plötu og ræður eflaust miklu upptökustjórinn Óskar Guðjónsson sem spilar einnig á gítarinn af snilld, en aðrir hljóðfæraleikarar standa sig líka með mikilli prýði, til að mynda Tómas Jónsson sem fer fimum höndum um hljómborð og Þorleifur Gaukur Davíðsson sem á stjörnuleik á munnhörpu, til að mynda í laginu „Nóg fyrir alla“.
Söngvarar á skífunni eru einvalalið; Magni Ásgeirsson, Kristján Kristánsson, Sigríður Thorlacius, Elvar Örn Friðriksson, Svavar Knútur Kristinsson og Valdimar Guðmundsson, en einnig sygur Helgi Júlíus sjálfur eitt lag. Hann fyrtist væntanlega ekki við þann dóm að hann sé sísti söngvarinn í þessum hópi, en má eiga það að hann kemst vel frá verkinu, kannski of settlegur, en býsna góður þó.
Helgi Júlíus Óskarsson er góður lagasmiður eins og hefur sannast á hverri prýðisskífunni af annarri á undanförnum árum. Vonandi heldur hann áfram að leyfa sköpunarþörfinni að ráða för.
Árni Matthíasson