FME Yfirlit yfir stöðu íslensku lífeyrissjóðanna var birt í gær.
FME Yfirlit yfir stöðu íslensku lífeyrissjóðanna var birt í gær. — Morgunblaðið/Ómar
Eignir alls íslenska lífeyriskerfisins voru 2.540 milljarðar króna við lok árs 2012. Það nemur 149% af vergri landsframleiðslu og hefur aldrei verið hærra.

Eignir alls íslenska lífeyriskerfisins voru 2.540 milljarðar króna við lok árs 2012. Það nemur 149% af vergri landsframleiðslu og hefur aldrei verið hærra. Þetta kemur fram í yfirliti Fjármálaeftirlitsins (FME) yfir stöðu lífeyrissjóðanna á síðasta ári, sem birt var í gær.

Af heildarupphæðinni voru 85% hluti af samtryggingadeildum lífeyrissjóðanna, alls 2.159 milljarðar króna. Þeir höfðu til viðbótar 236 milljarða af séreignasparnaði í sinni vörslu. Séreignasparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 146 milljörðum króna við lok síðasta árs.

Saman með helming markaðar

Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir samkvæmt yfirliti FME eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Sameinaði lífeyrissjóðurinn. Þeir voru einnig stærstir árið 2011. Hrein eign þeirra nam 1.403 milljörðum króna í árslok. Það er um 55% af lífeyrismarkaðinum og um 82% af vergri landsframleiðslu.

Í yfirliti FME kemur fram að staða lífeyriskerfisins sé öflug en þó séu veikleikar til staðar í því. Sjóðirnir séu stórir í efnahagslegu tilliti en umtalsverður halli sé enn á tryggingafræðilegri stöðu þeirra.

Hrein raunávöxtun samtryggingadeilda var 7,4% á liðnu ári sem er besta ávöxtun frá árinu 2006. Fimm ára meðalávöxtun var þó neikvæð um 2,4%. Raunávöxtun séreignadeildar var 6,4%. Tryggingafræðileg staða sjóða með opinberri ábyrgð er enn mjög slæm og nam hallinn um áramótin nærri 574 milljörðun króna. Staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda hefur batnað smám saman frá árinu 2008 og var halli þeirra nærri hundrað milljörðum í árslok 2012 að því er segir í yfirliti FME.

Til þess að draga úr þessum halla segir FME að þyrfti að hækka iðgjöld, skerða réttindi eða hækka lífeyrisaldur eins og komið hafi til tals að gera í nágrannalöndunum.