Íslendingar hafa notið listsköpunar Eddu Heiðrúnar Backman um áratugi, fyrst á sviði og nú á striga. Eins og alkunna er greindist Edda Heiðrún með MND-sjúkdóminn fyrir nokkrum árum og hefur hreyfigeta hennar skerst verulega í kjölfarið. Síðastliðin fimm ár hefur hún málað með munninum og hefur notið leiðsagnar Dereks K. Mundell. „Hún er orðin mjög fær í þessu enda orðin ansi vinsæl. Hún hafði aldrei verið að mála áður en hún byrjaði að mála með munninum en hún er svo listræn og hefur þetta í sér,“ segir Derek.
Næstkomandi laugardag, 13. júlí, klukkan 14 opnar sýning á verkum Eddu Heiðrúnar í Ráðhúsi Reykjavíkur en þar mun einnig listamaðurinn Tom Yendell formaður Bretlandsdeildar The Association of Mouth and Foot Painters sýna verk sín. Á sunnudeginum heldur Tom Yendell erindi um þessa starfsemi sem var sett á stofn fyrir um fimmtíu árum síðan ásamt því að segja frá eigin reynslu af því að mála handalaus. Að erindinu loknu ætla þau Edda Heiðrún og Tom Yendell að sýna gestum í verki hvernig þau mála með munni og fótum. Sýningin stendur til 28. júlí næstkomandi og ætti ekki nokkur listunnandi að láta hana framhjá sér fara.