Guðrún Ólafsdóttir fæddist í Hafnarfirði 1. apríl 1925. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 5. júní 2013.

Guðrún var jarðsungin frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 20. júní 2013.

Nú er síðasta drottningin farin, sagði Kristján bróðir okkar er hann frétti um andlát Rúnu.

Guðrún Ólafsdóttir hét hún og var alltaf kölluð Rúna. Hún var gift föðurbróður okkar, Ríkharði Kristjánssyni. Nú er það svo að elsta kynslóðin í fjölskyldu okkar er að hverfa og eftir standa ljúfar minningar. Rúna var hlý, skemmtileg, ljúf og góð kona. Hún reyndi mikið í gegnum tíðina og átti við ýmis veikindi að stríða. Rúna og Rikki urðu fyrir þeirri þungbæru sorg árið 1965 að þau misstu son sinn Kristján Björgvin, glæsilegan ungan mann og lítinn dreng stuttu eftir lát Kristjáns Björgvins heitins. Okkur verður oft hugsað aftur í tímann þegar við vorum börn en mikill samgangur var á milli heimilanna enda við systkinin og börn Rúnu og Rikka á sama aldri og jafn mörg. Það var mikil eftirvænting þegar jólin voru að nálgast í gamla daga en þá kom stórfjölskyldan saman á jóladag til skiptis hjá föðursystkinum okkar ár eftir ár. Dansað var í kringum jólatré, sungnir jólasálmar og súkkulaði og meðlæti í boði. Þetta voru dýrðartímar hjá okkur fjölskyldunni. Elskulegur Rikki og fjölskylda, við vottum ykkur dýpstu samúð og biðjum Guð að blessa Rúnu.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson)

Kristjana, Gísli, Hafsteinn, Kristján, Freyja og

Lína Ellertsbörn.