Kristjana Guðný Eggertsdóttir, Nanna, fæddist í Reykjavík 25. nóvember 1923. Hún lést 21. júní 2013.
Útför Kristjönu fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 1. júlí 2013.
Nanna Eggertsdóttir var ekki fyrsti Íslendingurinn sem ég hitti, en hún var örugglega sá fyrsti sem virtist þekkja bandaríska swing- og popptónlist frá fjórða áratug síðustu aldar ótrúlega vel. Mikið þekkti hún frá fyrstu hendi, en hún var dugleg að sækja tónleika hljómsveita og einleikara þegar hún var nemandi í University of California í Berkeley á stríðsárunum. Ást hennar á þessari tónlist náði hámarki með ævilangri tryggð við Tony Bennett.
Nanna heimsótti okkur Guðrúnu dóttur sína oft í Irvine í Kaliforníu, einkum síðustu tíu árin, eftir að Guðrún varð prófessor við UC, Irvine. Nanna var nöfnu sinni, dóttur okkar, góð amma. En hlý sólin, sem hún naut á meðan hún hlustaði á nýjustu diska Tony Bennett, veitti henni nánast alsælu. Já, lífið var vissulega gott á þessum friðsælu eftirmiðdögum. Ég rökræddi oft við hana um muninn á Frank Sinatra og Tony Bennett en aldrei lék vafi á því að Tony var hennar maður.
Ef ég ætti að lýsa persónuleika Nönnu með einu orði þá væri það líklega orðið „ögrandi“ (provocative). Ég geri ráð fyrir að flestir tengdasynir hugsi á þennan hátt, en ég vísa hér til hinnar víðtæku merkingar orðsins, ekki einungis þeirrar neikvæðu, sem fólk tengir gjarnan þessu orði í seinni tíð. Ef lesandi kannast við Auntie Mame þá veit hann hvað ég meina. Nanna var ekki alltaf sammála mínum skoðunum og rökræður okkar fengu mig til að hugsa og endurskoða hug minn. Slíkt er alltaf gagnlegt og skerpir eigin hugsun. Og þvílík sagnakona; hún mundi löngu liðna atburði í smáatriðum, jafnvel fimmtíu ára gamla, og lauk gjarnan sögum sínum með einkennandi stelpulegum hlátri sem smitaði auðveldlega. Og ekki má gleyma hinum örláta gestgjafa sem alltaf átti uppáhalds íslensku kökurnar handa mér að ekki sé minnst á besta koníak sem hún keypti gjarnan sérstaklega handa mér á ferðum sínum til meginlandsins. Og ekki má heldur gleyma meðfæddri tilfinningu hennar fyrir tísku og stíl sem lifði langt fram yfir áttrætt.
Þegar Guðrún sagði mér að tónlist Tony Bennett hefði hljómað á sjúkrastofu hennar á dánarstund velti ég fyrir mér hvert síðasta lagið hefði verið. Ef til vill Boulevard of Broken Dreams, fyrsta lag sem tekið var upp með Tony Bennett, en Nanna heyrði það flutt á skemmtistað í New York árið 1950. Eða var það Lullaby of Broadway eða Steppin‘ Out With My Baby eða jafnvel hið rómantíska Moonlight in Vermont? Hvert sem lagið var getum við verið viss um að hún raulaði með þessi síðustu andartök. Góða ferð, eftirminnilega tengdamóðir og vinur.
Jeffrey Gailiun.