Baksvið
Karl Blöndal
kbl@mbl.is
Brasilía hefur verið land uppgangs og hagvaxtar undanfarinn áratug og því komu fjöldamótmælin, sem blossuðu upp í kringum álfukeppnina í knattspyrnu, mörgum í opna skjöldu. Síðan 2003 hefur fjölgað um 40 milljónir manna í millistétt landsins og þeim, sem lifa í sárri fátækt, hefur fækkað verulega. Hagkerfið hefur hægt á sér, en engu að síður hafa flestir það betra en fyrir tíu árum. Engu að síður voru mótmælin víðtæk og þar réði millistéttin för.
Samkvæmt skoðanakönnun, sem birtist seinni hluta júní, studdu þrír fjórðu Brasilíumanna mótmælin. Flestir, 77%, sögðu að ástæðan væri hár kostnaður við að nota almenningssamgöngur. 47% aðspurðra sögðu að þeir hefðu fengið nóg af stjórnmálamönnum.
Fargjöld í strætó kveikjan
Hækkun fargjalda í strætó og lestir í Sao Paulo, Ríó de Janeiro og víðar var kveikjan að mótmælunum. Hækkunin í Sao Paulo var upp á óverulega upphæð, 20 centavo (0,2 real eða 11 íslenskar krónur), en samgöngukerfið er alræmt fyrir að vera lélegt og almenningur var ekki tilbúinn að kyngja hækkun á óviðunandi þjónustu. Að lokum voru hækkanirnar dregnar til baka í 14 borgum.Þegar tilkynnt var að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu á næsta ári yrði haldin í Brasilíu braust út fögnuður og þótti mörgum tímabært, enda hafði keppnin ekki verið haldin þar síðan 1950. Hins vegar kviknuðu einnig vonir um að í leiðinni yrðu innviðir landsins styrktir. Það hefur ekki orðið þrátt fyrir að undirbúningur fyrir álfukeppnina í knattspyrnu, sem fram fór í júní, og heimsmeistarakeppnina á næsta ári muni kosta 15 milljarða dollara (1.903 milljarða króna). Sögðu mótmælendur að þessu fé hefði betur verið varið í að bæta feyskna innviði landsins.
Eins og James Surowiecki orðar það í grein í tímaritinu The New Yorker er grunnvandinn sá að lífsgæði í landinu eru langt á eftir þeirri aukningu, sem orðið hefur í tekjum landsmanna. „Brasilía er land vaxandi millistéttar, sem enn hefur mörg einkenni fátækara lands,“ skrifar hann. „Opinber þjónusta er alræmd fyrir að vera slæm. Opinbera heilsugæslan er að sligast undan mannfjölda og opinbera menntakerfið, sem reyndar fer batnandi, er langt frá því að vera gott: í nýlegri könnun um gæði menntunar í 40 lykilríkjum var Brasilía í næstneðsta sæti. Brasilíska lögreglan er óskilvirk og stundum spillt þannig að borgurunum finnst þeir ekki vera öruggir.“
Eins og Surowiecki bendir á geta brasilískir auðmenn notað peningana sína til að bæta sér upp óvirkt kerfi. Þeir geta keypt sér heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir börnin sín og leigt sér lífverði. Millistéttin ræður ekki við það. Þess utan er dýrt að búa í Brasilíu. Sao Paulo og Ríó eru meðal 14 dýrustu borga heims. Með aukinni velmegun fjölgar skattborgurum og þeir vilja fá eitthvað fyrir peningana.
Hagvöxtur hefur látið á sér standa undanfarin tvö ár og verðbólga hefur farið vaxandi. Hagvöxtur í Brasilíu fyrsta fjórðung ársins var 0,6% eða 2,4% á ársgrundvelli. Haldi fram sem horfir verður 6,7% verðbólga í landinu á árinu, en verðbólgumarkmið stjórnvalda er 4,5%.
Rousseff bregst við
Eftir að Dilma Rousseff varð forseti 2011 hefur hún reynt að ýta undir hagvöxt í gegnum neyslu með því að hækka lágmarkslaun og skipa ríkisreknum bönkum að lána meira. Verðbólgu var ekki mætt með hærri vöxtum heldur lækkun söluskatts og því að halda niðri verði á mat, eldsneyti og strætómiðum, sem vega þungt í vísitölunni. Í mars voru vinsældir Rousseff komnar í 79%. Samkvæmt könnun, sem birtist um mánaðamótin, er hlutfall þeirra, sem eru ánægðir með störf hennar, nú komið niður í 30%.Rousseff brást strax við mótmælunum. Tilkynnt var að 22 milljarðar dollara yrðu lagðir í samgöngur í borgum landsins. Þingið samþykkti lög um að allar arðgreiðslur til ríkisins af olíu rynnu til mennta- og heilbrigðismála. Í öldungadeildinni var samþykkt tillaga um að þeir, sem dæmdir væru fyrir spillingu, ættu hvorki kost á reynslulausn né náðun. Þá lögðu stjórnvöld til að haldið yrði þjóðaratkvæði um hvort breyta ætti fjármögnun kosningabaráttu til að draga úr áhrifum fyrirtækja á stjórnarhætti.
HEIMSMEISTARAKEPPNIN Í BRASILÍU
Óttast um stemminguna
Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu verður haldin í tólf borgum í Brasilíu á næsta ári. Knattspyrnuvellirnir hafa verið gerðir upp og í kringum þá mælir alþjóðlega knattspyrnusambandið, FIFA, fyrir um að sé tveggja kílómetra breitt „útilokunarsvæði“ þar sem fólk má ekki vera á ferð án erindis. Innan þessa svæðis má aðeins selja varning, sem nýtur velþóknunar FIFA. Samkvæmt samtökunum Streetnet urðu 100 þúsund götusalar í Suður-Afríku af viðskiptum út af þessari reglu þegar heimsmeistarakeppnin fór fram þar 2010. Því hefur verið mótmælt í Brasilíu að ekki megi selja þjóðlega rétti á borð við acarajes, djúpsteiktar baunabollur, inni á svæðinu.Þá komast færri í sæti vegna breytinga á völlunum og fækkar sætum jafnvel um helming. 200.000 manns gátu fylgst með úrslitunum í Maracana 1950, en aðeins 74.000 manns munu geta horft á úrslitaleikinn á sama velli að ári. Einnig verður bannað að berja bumbur og breiða úr stórum fánum. Þykir mörgum Brasilíumönnum þetta tilræði við stemminguna á leikvellinum.