Við erum misjöfn eins og við erum mörg og gildir það líka um val á sjónvarpsefni. Velur þú spennu og glæpi? Rómantík eða drama? Kómedíu? Sjálf kýs ég oftar hasarinn fram yfir hitt, enda er blæti fyrir bófum ekkert feimnismál. Þá er ég sérstaklega hrifin af bíræfnum mafíósum og eru klassískar kvikmyndir á borð við The Godfather I, II og III, Casino, Goodfellas og Untouchables í miklu uppáhaldi enda algjörlega ódauðlegar bíómyndir.
Fyrr í vetur sýndi Stöð 2 þáttaröð, með Kevin Bacon í aðalhlutverki, sem nefnist The Following. Að vísu fór Bacon með hlutverk góðu löggunnar, sem er sjaldséð sjón en James Purefoy túlkaði persónu hins illa og geðsturlaða morðingja Joe Carroll á ógleymanlegan hátt. Bófablætið lét snemma á sér kræla og undir lok seríunnar var óþokkinn heldur betur búinn að heilla, að undanskilinni geðveikinni auðvitað. Umræddur Joe Carroll er nefnilega svolítið sjarmatröll, dökkur yfirlitum, kurteis og með breskan hreim.
Lokaþátturinn fékk hjartað til að slá í takt við þvottavél og biðin eftir annarri þáttaröð er löng en hún hefst ekki fyrr en eftir áramót. Það þýðir því lítið að halda í sér andanum þangað til.
Gunnþórunn Jónsdóttir