Fasteignir Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað.
Fasteignir Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Þinglýstum leigusamningum með íbúðarhúsnæði á öðrum ársfjórðungi fjölgaði um rúm 17% frá því á síðasta ári. Sú þróun sem var á milli áranna 2011 og 2012, en þá var 14% samdráttur í fjölda leigusamninga, hefur þar með snúist við.

Þinglýstum leigusamningum með íbúðarhúsnæði á öðrum ársfjórðungi fjölgaði um rúm 17% frá því á síðasta ári. Sú þróun sem var á milli áranna 2011 og 2012, en þá var 14% samdráttur í fjölda leigusamninga, hefur þar með snúist við. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.

Segir greiningin fjölda leigusamninga á öðrum ársfjórðungi í ár svipaðan og hann var á sama tíma á árunum 2009 til 2011 en þá var leigumarkaðurinn afar líflegur sögulega séð. Þá hefur fjöldi leigusamninga á öðrum ársfjórðungi í ár meira en tvöfaldast frá árunum 2006 og 2007.

„Það sem af er ári hefur leigusamningum með íbúðarhúsnæði fjölgað um 8,2% miðað við sama tímabil árið 2012. Jafnframt hefur fjöldinn aukist um 8,8% milli maí og júní,“ segir greiningardeildin enn fremur. Bendir hún á að mikil árstíðasveifla sé í fjölda þinglýstra leigusamninga. Þeir séu fæstir á veturna en fjölgar frá vori til upphafs skólaárs á haustin þegar fjöldinn nær hámarki.

„Samhliða því að þinglýstum leigusamningum fjölgar hefur vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað. Nemur hækkunin 10,5% frá maí 2012 til maí 2013, skv. tölum sem Þjóðskrá Íslands birti í síðasta mánuði. Raunverðshækkunin er um 7% á sama tímabili.“ Jafnframt bendir greiningardeildin á að minni hækkun hafi verið á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu á tímbilinu, eða 6,5% að nafnvirði og 3,1% að raunvirði. „Leiguverð hefur hækkað um 8,5% að raunvirði frá því Þjóðskrá Íslands hóf mælingar á því í janúar 2011 fram í maí 2013,“ segja greinendur Íslandsbanka að lokum. kij@mbl.is