Lilian Agneta Mörk Guðlaugsson fæddist í Þórshöfn í Færeyjum 25. maí 1926. Hún lést á Landakotsspítala 13. maí 2013.

Útför Lilian Agnetu var gerð frá Fossvogskirkju 21. maí 2013.

Ástkær móðir okkar, Lilian M. Guðlaugsson, lést 13. maí 2013 á Landakoti. Mamma var fædd og uppalin í Færeyjum. Hún kom til Íslands 1946 og var tvígift. Með fyrri eiginmanni átti hún 7 börn. Með eftirlifandi eiginmanni sínum, Sæmundi Guðlaugssyni, átti hún einn son. Mamma og Sæme eins og hún kallaði hann, voru gift í 50 hamingjusöm ár. Þau voru mjög elsk hvort að öðru og Sæme annaðist mömmu af alúð og ást á meðan heilsa hans leyfði.

Mamma var sterk kona, sem vissi hvað hún vildi og barðist fyrir því sem hún hafði trú á. Hún gat verið jafn ráðrík og hún var elskuleg, sem sýnir að hún var mannleg, með öllu sem því fylgir. Hún var létt í lund, elskaði góðar sögur og vísur. Á mannamótum var hún hrókur alls fagnaðar, því hún var falleg, sjarmerandi og fyndin. Það geislaði af henni mömmu okkar.

Henni var mjög annt um þá sem minna máttu sín í lífinu. Heimili okkar var ætíð opið þeim sem þurftu, og eins öllum vinum okkar barnanna og síðar barnabarnanna.

Í bernsku man ég eftir dönsku blöðunum. Þau voru ómissandi hluti af lífi hennar. Þar gat hún fylgst með dönsku kóngafjölskyldunni, og kóngafólki í Evrópu, ásamt öðru frægu fólki. Ég man eftir að á einum vegg heima voru bara myndir af kóngafólki. Sorgmæddur sagði pabbi; nú getur hún ekki upplifað fæðingu barns Kate og Williams.

Mamma var með mjög sterkan færeyskan hreim. Hún blandaði saman færeysku og íslensku og náði aldrei að bera fram Þ. Oft varð úr þessu skondinn misskilningur og hlátur. Hún fékk sér „ein temund“, og ef hún nennti ekki einhverju þá var sagt „eg time so illa“, ef spennandi tíðindi voru sögð þá heyrðist „oys oys pína doy“. Við söknum þess að heyra ekki lengur þessi orð, mamma mín.

Þegar ég sem fullorðin horfi yfir líf móður minnar, þá dáist ég að styrk, kjarki, kærleik og atorku hennar og hvað hún var heilsteypt. Mamma var alltaf til staðar þegar okkur vantaði hjálp, ráðleggingar eða kærleiksorð. Vini eignaðist hún hvert sem hún fór. Hinn rauði þráður í lífi hennar var: fjölskyldan, Sæme, vinir, handavinna, músík og dönsku blöðin.

Við söknum þín mamma og munum sakna þín. Það var gott að þú fékkst ósk þín uppfyllta og sofnaðir. Þú varst södd lífdaga, hafðir lifað löngu og viðburðaríku lífi, en við söknum þín samt. Knús elsku mamma frá okkur:

Jóhannes og Liz, Jóhanna og Jósef, Ester og Lars, Ingibjörg, Ari og Lísa, Ingvi og Julie og barnabörn.