Kona sem handtekin var í miðborg Reykjavíkur um helgina ætlar að kæra lögreglumanninn sem handtók hana, að sögn Arnars Kormáks Friðrikssonar, lögmanns hennar. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað máli lögreglumannsins til ríkissaksóknara sem mun rannsaka handtökuna. Hún náðist á myndband og hafa margir sakað lögreglumanninn um harkalega meðferð á konunni.
Arnar Kormákur segir sýnilega áverka vera víða á líkama konunnar, sem er 29 ára gamall Reykvíkingur, eftir handtökuna en daginn eftir atvikið leitaði hún læknis til að fá áverkavottorð. Hún eigi eftir að fara í skýrslutöku og þar af leiðandi hafi formleg kæra ekki enn verið lögð fram. Hún verði hins vegar lögð fram þegar þar að kemur.