Fjölmiðlamenn hljóta að kunna forseta Íslands sérstakar þakkir fyrir að halda blaðamannafund í júlí. Í þeim mánuði er ekki mikið um stórtíðindi innanlands og fjölmiðlamenn fagna því mjög fréttum sem kalla á fréttaskýringar og túlkanir stjórnmálaskýrenda. Fjölmiðlamönnum hefur því örugglega liðið jafnvel á blaðamannafundinum á Bessastöðum og forsetanum sjálfum. Fréttastjórar hafa svo eflaust hoppað af kæti á vinnustað sínum. Ólíkt öðrum landsmönnum eru fréttastjórar yfirleitt fremur mæddir og þreytulegir í júlímánuði. Það tekur óneitanlega á að fylla forsíðu og finna fyrstu útvarps- og sjónvarpsfrétt í mánuði þar sem afar fátt gerist innanlands.
Ákvörðun forsetans um að staðfesta lög um veiðigjald kom ekki á óvart, en orðalagið í rökstuðningnum var á þann veg að álitsgjafar hafa nóg að túlka. Forsetinn hefur reyndar ekki sérlega mikið álit á slíkum mönnum sem hann segir í ætt við bloggara. Með þeim orðum tókst forsetanum, eins og honum er einum lagið, að móðga fjölmarga en hann kemst upp með það því hann er forsetinn. Þjóðin hefur margsýnt að hún vill að forsetinn sé hæfilega kjaftfor og núverandi forseti kann að koma svívirðingum til skila með yfirveguðum raddblæ sem virkar svo sannfærandi að stór hluti þjóðarinnar hugsar: „Já, er þetta ekki bara alveg rétt hjá honum!“ Þjóðin hefur lítið sem ekkert álit á fremur sviplausum stjórnmálamönnum sínum en henni finnst forsetinn vera töffari.
Nokkuð hefur verið rætt um þann fjölda sem skráði nafn sitt á undirskriftalista gegn lækkun veiðigjalds eða voru skráðir á listann af öðrum - það er engin ástæða til að horfa framhjá því að lítill vandi er að komast yfir kennitölur manna. En er þetta áberandi fjöldi? Nei, þetta er einungis brot af þjóðinni.
Einhver hópur manna er ávallt viðbúinn þegar kallið kemur um að skrá sig á mótmælalista. Það skiptir svo til engu um hvað málið snýst, aðalatriðið er að vera staðfastlega á móti. Annar hópur er síðan í öflugri stjórnarandstöðu og tekur viðbragð í hvert sinn sem tækifæri gefast til að gera ríkisstjórninni grikk. Í þessu máli bætist það við að margir líta á fulltrúa útgerðarinnar sem illgjarnt og gráðugt auðvald sem vinni nótt og dag gegn hagsmunum almennings.
Einn forsvarsmanna undirskriftasöfnunarinnar segir sorglegt að forsetinn skuli ekki hafa staðið með þjóð sinni. Ekki verður annað séð en að forsetinn hafi einmitt staðið með þjóðinni sem sýndi engan æsing í þessu máli. Það var enginn sérstakur hávaði í landinu vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar. Almenningur virtist ekki líta á það sem stórmál og stjórnarandstaðan var ekki sérlega sannfærandi í málflutningi sínum. Þótt undirskriftir hafi verið 35.000 þá varð frumvarp ríkisstjórnarinnar ekki að hitamáli. Sem segir okkur kannski að það er enginn sérstakur vandi að fá stóran hóp til að skrifa undir nánast hvað sem er. kolbrun@mbl.is
Kolbrún Bergþórsdóttir