Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Strandveiðar í júlí verða stöðvaðar á svæði A, frá Eyja- og Miklholtshreppi til Súðavíkurhrepps, frá morgundeginum 12. júlí. Síðasti veiðidagur mánaðarins er því í dag. Hægar hefur gengið að ná strandveiðiaflanum á öðrum svæðum. Ónotaðar heimildir í hverjum mánuði flytjast á milli mánaða allt til loka strandveiðitímans í ágústlok.
Misjöfn aflabrögð á svæðum
Búið var að veiða 91% af leyfðum afla á svæði A þriðjudaginn 9. júlí frá því að strandveiðarnar hófust í maí. Á því svæði eru 248 bátar með strandveiðileyfi og höfðu allir landað afla nema einn. Heildaraflinn var orðin 2.215 tonn og meðalafli í róðri var 558 kg, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.Á svæði B, Strandabyggð til Grýtubakkahrepps, var búið að nýta 76% aflaheimilda frá maí til júlí. Afli var samtals orðinn 1.320 tonn og voru 411 tonn ónotuð af kvótanum. Meðalafli í róðri var 511 kg. Á svæði B eru 144 bátar með strandveiðileyfi og hafði 141 bátur landað afla.
Á svæði C, frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps, var búið að veiða 46% kvótans frá maí til júlí. Landað hafði verið 867 tonnum á þriðjudag en ónotuð voru 1.006 tonn af kvótanum. Meðalafli í róðri var 435 kg. Á svæði C eru 139 bátar með strandveiðileyfi og höfðu 136 bátar landað.
Á svæði D, frá sveitarfélaginu Hornafirði til Borgarbyggðar, var búið að veiða 75% kvótans frá maí til júlí. Afli var samtals orðinn 1.014 tonn og 336 tonn voru óveidd. Meðalafli í róðri var 491 kg. Á svæði D eru 132 bátar með strandveiðileyfi og höfðu 129 bátar landað afla.
Ólík handfæratímabil
Skýringin á því hve misjafnlega hefur gengið á kvótann á hinum ýmsu veiðisvæðum er sú að handfæraveiðarnar byrja á mismunandi tíma við landið, að sögn Arthurs Bogasonar, formanns Landssambands smábátaeigenda.„Ég var sjálfur á skaki fyrir Suðurlandi fyrir mörgum árum. Þá vorum við að fá afla í janúar og febrúar,“ sagði Arthur. Hann sagði að færafiskurinn gefi sig fyrst við Suður- og Suðvesturland. Síðan fari hann að gefa sig fyrir Vesturlandi og svo áfram norður og austur hringinn í kringum landið. Handfæraveiðar taka yfirleitt seinast við sér fyrir Austurlandi og það skýrir hve mikið er óveitt af kvóta C-svæðis.
Arthur sagði handfæramenn á Austurlandi lengi hafa lagt til að þeir fengju að veiða í september en sleppa þess í stað veiðum í maí. Sömuleiðis hafi handfæramenn á D-svæði, þ.e. Suðurlandi, viljað fá að hefja veiðar í apríl en sleppa því að veiða í ágúst.
Hann sagði að fjögurra mánaða strandveiðitímabilið, maí-ágúst, sé of þröngt til þess að allir strandveiðisjómenn landsins sitji í raun við sama borð.
Strandveiðar
» Leyft er að veiða á handfæri allt að 8.600 tonn af óslægðum fiski á tímabilinu frá maí til loka ágúst.
» Hver veiðiferð strandveiðibáts má ekki standa lengur en í 14 klukkustundir.
» Einungis má veiða 650 kg, í þorskígildum miðað við slægðan fisk, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.