Leikmenn ríkjandi Evrópumeistaraliðs Þýskalands hafa til talsverðs að vinna á mótinu í Svíþjóð. Auk heiðursins sem fylgir því að ná langt í mótinu fá leikmenn nefnilega einnig bónusgreiðslur í samræmi við árangurinn. Mest fá leikmenn fyrir að landa Evrópumeistaratitlinum í áttunda sinn eða 22.500 evrur á mann, jafnvirði 3,65 milljóna króna. Leikmenn fá 2,4 milljónir fyrir að komast í úrslitaleikinn og 1,6 milljónir fyrir að komast í undanúrslit. Þá fá þeir rúmar 800 þúsund krónur fyrir það eitt að komast upp úr riðlinum sem þeir leika í ásamt Íslandi, Noregi og Hollandi.
Leikmönnum íslenska liðsins hefur ekki verið lofað neinni bónusgreiðslu fyrir árangur í mótinu. Þeir fengu hins vegar samtals 10 milljónir króna fyrir að komast í úrslitakeppnina. sindris@mbl.is