Loftur Altice Þorsteinsson
Loftur Altice Þorsteinsson
Eftir Loft Altice Þorsteinsson: "Aðalsmenn ESB fullyrða að besta aðferðin til að efla lýðræði sé að leggja það niður og fela yfirþjóðlegum valdamönnum stjórnina."

Eins og flest ríki byggir Evrópusambandið (ESB) tilveru sína á ákveðinni hugmyndafræði, það á sína landnámshugmynd. Því er haldið að fólki að til ESB hafi verið stofnað sem friðarríkis – í þeim tilgangi að hindra styrjaldir. ESB flaggar þeirri hugmynd að útþenslustefna evrópskra nýlenduvelda stafi af ættgengri gena-breytingu. Því geti ekkert nema ofurvald ESB hindrað þjóðir Evrópu að berast á banaspjótum.

Staðreyndin er sú að samruni evrópsku höfðingjastéttarinnar var knúinn áfram af ótta Bandaríkjanna við Ráðstjórnarríkin. Við lok heimsstyrjaldarinnar hafði hafist kalt stríð á milli hinna fyrri bandamanna og Bandaríkin töldu afgerandi að Evrópa yrði sterkur bandamaður í kalda stríðinu. Mikilvægt atriði var einnig að Frakkland hafði hernumið rík kolasvæði í Þýskalandi og ríkisstjórn Charles de Gaulle neitaði að láta Ruhr og Saar af hendi.

Jean Monnet var hvatamaður að stofnun sambandsríkis Evrópu

Pattstaða ríkti, en Monnet (1888-1979) skipti sköpum við sameiningu Evrópu og er jafnvel nefndur faðir Evrópusambandsins. Samt var Jean Monnet ekki venjulegur stjórnmálamaður með umboð frá kjósendum. Jean Monnet hóf störf fyrir Bandaríkin um 1940, þegar hann gerðist ráðgjafi Franklin Roosevelt forseta. Samruninn í Evrópu hófst formlega 18. apríl 1951 með stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu. Hinn 9. maí 1950 hafði Robert Schumann utanríkisráðherra flutt yfirlýsingu í nafni ríkisstjórnar Frakklands, um stofnun bandalagsins, sem samin var af Jean Monnet. Bandaríkjunum tóks að fá öxulveldin Þýskaland og Ítalíu til samstarfs, auk Frakklands, Belgíu, Lúxemborgar og Hollands. Evrópa var fyrst núna tilbúin til fullrar þátttöku í kalda stríðinu.

Frá upphafi var ætlunin að Evrópa yrði sambandsríki, en ekkert stjórnarform er jafn ólýðræðislegt og sambandsríki. Þrátt fyrir skrúðmælgi um friðartilgang var tilgangur með sambandsríkinu sá að efla hernaðarmátt Evrópu. Kol og stál var undirstaða vopnaframleiðslunnar. Í Schuman-yfirlýsingunni er ekki að finna eitt orð um lýðræði, hvað þá um fyrirætlanir um að koma á stjórnarformi lýðveldis. Hins vegar kemur í ljós að nýlendudraumar Evrópumanna voru ekki útkulnaðir, því að sagt er: „Með aðgangi að þessum auknu auðlindum (kol og stál), mun Evrópa verða fær um að sinna einu af mikilvægustu verkefnum sínum, það er að segja uppbyggingu meginlands Afríku.“

Fljótlega gengu þjóðlausir menningarvitar og aðalsmenn til liðs við vopnaframleiðendur. Þessir liðsmenn sambandsríkis Evrópu réðust gegn öllu sem talist gat þjóðlegt. Furðulegt má heita að nafnið Þýskaland hefur fengið að vera í friði fyrir þessum öfgamönnum, því að Þýskaland merkir auðvitað „land þjóðarinnar“. Aðalsmenn ESB fullyrða, að besta aðferðin til að efla lýðræði sé að leggja það niður og fela yfirþjóðlegum valdamönnum stjórnina.

Þeir fullyrða að jafnaðarmenn eins og þeir sjálfir séu best fallnir til stjórnar og að þjóðaratkvæði sé hrein flónska.

Íslandi stafar hætta af útþenslu sambandsríkis Evrópu

Við Íslendingar höfum fengið okkar skammt af hugmyndum evrópskra jafnaðarmanna, sem tala um „deilt fullveldi“ og „innra og ytra fullveldi“. Tilgangurinn með svona tali er að afvegaleiða umræðuna, svo að almenningur viti hvorki upp né niður. Hugtakið „fullveldi“ er stjórnarfarslegt grundvallaratriði, sem ekki má afskræma. Fullveldi merkir „fullt vald“ og vísar til endanlegs og ótakmarkaðs valds um stjórnkerfi landsins. Endanlegt er fullveldið, vegna þess að ákvörðunum fullveldishafans verður ekki vísað til annars aðila. Ótakmarkað er fullveldið, vegna þess að það tekur til allra þátta stjórnarforms og stjórnarfars. Í lýðveldum fer almenningur með fullveldið.

Stefnan hafði verið mörkuð með stofnun Kola- og stálbandalagsins 1951. Við sameiningu Þýskalands 1990, sem styrkti mikið stöðu þess, urðu ráðamenn í Frakklandi óttaslegnir og sáu ekki annað úrræði en aukna sameiningu. Tekið var það örlagaríka skref að stofna til myntsamstarfs um gjaldmiðil, sem nefndur var evra. Ekkert er athugavert við upptöku sameiginlegs gjaldmiðils, en þetta var gert undir formerkjum „torgreindrar peningastefnu“. Henni fylgir ríkisábyrgð á fjármálastofnunum, stefna sem nú er að hruni komin og sjálft Evrópusambandið er á barmi hyldýpis.

Rúmlega 60 ára saga ESB sýnir, að ólýðræðislegt sambandsríki er ekki á vetur setjandi. Smáríki, sem oft eru nefnd jaðarríki, eru í sérstaklega erfiðri stöðu innan Evrópusambandsins. Frjáls viðskipti með vörur innan tollabandalagsins hindrar jaðarríkin í að ná hagstæðum viðskiptum við ríki utan ESB. Afleiðingin er ofríki stórfyrirtækja í Frakklandi og Þýskalandi. Framleiðsla verður einhæf í jaðarríkjunum og atvinnustarfsemi í þeim verður aðallega fólgin í ferðaþjónustu og útvegun hráefna fyrir stórveldin. Kröfur stórveldanna um fjármálalegt forræði þeirra og valdbeiting sem aðferð í samskiptum við jaðarríkin, gerir ESB allt annað en heimilislegt nábýli. Hugmyndin um sambandsríki Evrópu er úrelt hugmynd frá tíma kalda stríðsins.

Höfundur er verkfræðingur og stjórnarmaður í félaginu Samstaða þjóðar.

Höf.: Loft Altice Þorsteinsson