Björn Bjarnason skrifar um Ólaf Ragnar Grímsson forseta og þrýstinginn á hann um að skrifa ekki undir lögin um veiðileyfagjald:
Ólafur Ragnar Grímsson bætti enn einni fléttunni í ákvarðanir sínar í krafti 26. gr. stjórnarskrárinnar, leifanna frá einveldistímanum sem hann hefur nýtt til að grafa undan þingræðisreglunni. Að þessu sinni stóð hann með löggjafanum og ákvað að rita undir lögin sem snerta veiðileyfagjald. Ólafur Ragnar tekur geðþóttaákvarðanir um undirritun laga og leitast við að færa þær í rökheldan búning þegar á hann er gengið. Hann er hættur að vera ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum eins og forseta ber að vera og er á kafi í pólitískri glímu.
Fyrir níu árum þegar Ólafur Ragnar tók til við að synja lögum staðfestingar og lagði Baugsmönnum lið í baráttu þeirra við ríkisstjórn og meirihluta alþingis vegna fjölmiðlalaganna var hrópað á hann til útlanda og hann beðinn að koma tafarlaust heim, annars myndu handhafar forsetavalds rita undir lögin. Að þessu sinni var Ólafur Ragnar einnig grátbeðinn að dveljast í landinu, hótuðu Píratar málþófi á Alþingi til að tryggja að Ólafur Ragnar yrði á Bessastöðum í [fyrra]dag. Þeir vonuðu að hann hafnaði lögunum.