Ég held ég skelli mér bara í golf og borði góðan mat,“ segir Aðalsteinn Pálsson, verkfræðinemi, en hann heldur upp á 23 ára afmælið sitt í dag. Þá bendir Aðalsteinn á að hann sé ekki vanur því að halda upp á afmælið sitt. Aðalsteinn útskrifaðist með BS-gráðu í vélaverkfræði fyrr á þessu ári en hann segist stefna á að bæta við sig gráðu í hugbúnaðarverkfræði. „Þannig að þetta verður svona fjögurra ára tvöfaldur BS,“ segir Aðalsteinn.
Nýlega tók hann þátt í keppninni Formula Student 2013 og keppti hann þar sem hluti af liði Háskóla Íslands. Keppnin, sem fór fram á Silverstone-kappakstursbrautinni í Bretlandi, felst í því að lið frá Háskólum víðs vegar um heim eiga að hanna eigin kappakstursbíl. Spurður að því hvað varð til þess að hann fór út í að hanna formúlubíl segir Aðalsteinn að þar hafi aðallega verið um spennandi verkefni að ræða. „Þetta er bæði krefjandi og það er lítil reynsla í þessu hér á landi, þannig að þetta býður, þannig séð, upp á mikið frelsi í hugsun og vinnuháttum,“ segir Aðalsteinn og bendir á að liðið hafi ekki verið komið með eigin bíl fyrir keppnina í ár. „Þetta er tveggja ára ferli. Fyrst förum við út og kynnum hönnunina, viðskiptaáætlunina og kostnaðaráætlunina og fáum viðbrögð við því. Síðan förum við í smíði núna strax í haust og mætum vonandi með tilbúinn bíl næsta sumar,“ segir Aðalsteinn. skulih@mbl.is