Landspítalinn Í pistli sínum í Morgunblaðinu í gær sagði Kristján Þór að 8,6 milljarða vantaði upp á til að leysa fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins.
Landspítalinn Í pistli sínum í Morgunblaðinu í gær sagði Kristján Þór að 8,6 milljarða vantaði upp á til að leysa fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Skúli Hansen skulih@mbl.is Áætlaður hallarekstur sjúkrahúsa og heilbrigðistofnana á árinu er um 1,1 milljarður króna. Halli frá fyrri árum er um 3,8 milljarðar. Þá nema veikleikar í fjárlögum þessa árs, á borð við t.d.

Baksvið

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Áætlaður hallarekstur sjúkrahúsa og heilbrigðistofnana á árinu er um 1,1 milljarður króna. Halli frá fyrri árum er um 3,8 milljarðar. Þá nema veikleikar í fjárlögum þessa árs, á borð við t.d. sjúkratryggingar og jafnlaunaátakið, um 3,6 milljörðum. Þetta segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Í Morgunblaðinu í gær birtist pistill eftir Kristján þar sem hann sagði 8,6 milljarða vanta á þessu ári, að öllu óbreyttu, til að leysa fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins.

Að sögn Kristjáns sér hann það fyrir sér að hægt sé að ná fram aukinni framleiðni í heilbrigðiskerfinu, þ.e. að landsmenn fái meiri þjónustu fyrir sama fé. „Það þarf tíma til að gera slíkar breytingar og ef við eigum hinsvegar að hagræða um stórar og miklar fjárhæðir þá er alveg hægt að hugsa sér að það sé gert en það þýðir þá líka að við erum þá ekki að horfa upp á sömu þjónustu á næsta ári innan íslenska heilbrigðiskerfisins eins og við erum að horfa upp á í dag,“ segir Kristján.

Þá leggur hann áherslu á að ekki verði skorið meira niður með flötum niðurskurði heldur verði forgangsraðað á hinum mismunandi sviðum. „Það er alveg hægt að kroppa í heilbrigðisþjónustuna alla en þar er um að ræða hundrað milljarða rekstur og stærstu atriðin í þeim rekstri er Landspítalinn og sjúkratryggingar, eitthvað um 70 milljarða útgjöld og þá eru þrjátíu milljarðar eftir,“ segir Kristján.

Ekki má ganga lengra

„Ég get tekið undir það með Kristjáni Þór að ekki megi ganga lengra í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var byrjuð að gefa til baka fyrri aðhaldsaðgerðir með auknum framlögum til tækjakaupa, sem og til S-merktu lyfjanna og til jafnlaunaátaks,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og 2. varaformaður fjárlaganefndar Alþingis.

Hún segist ekki vita nákvæmlega hvað Kristján Þór eigi við með þeim orðum sínum að 8,6 milljarða vanti inn í kerfið. „Rekstur heilbrigðisstofnanna hefur verið aðlagaður því rekstrarumhverfi sem stofnanirnar hafa því miður þurft að búa við eftir efnahagshrunið og starfsfólk og stjórnendur unnið þrekvirki við að halda uppi góðri þjónustu við þær aðstæður,“ segir Oddný sem bendir á að sá uppsafnaði halli sem Kristján Þór nefnir sé halli sem heilbrigðiskerfið hafi komið með úr góðærinu inn í hrunið. „Það gerði aðhaldsaðgerðir á síðasta kjörtímabili enn erfiðari en ef heilbrigðiskerfið hefði notið forgangs þegar peningar voru fyrir hendi til uppbyggingar,“ segir Oddný og gagnrýnir jafnframt ummæli Kristjáns um Hús íslenskra fræða og fangelsið á Hólmsheiði. „Hann nefnir Hús íslenskra fræða og fangelsi sem eru fjárfestingar sem ráðast átti í bæði vegna vanda í fangelsismálum en einnig til að auka opinbera fjárfestingu og skapa atvinnu. Ætlar ríkisstjórnin að hætta við þær fjárfestingar?“ segir Oddný.

„Hálf hjákátlegt hjá ráðherra“

Að sögn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri-grænna og fulltrúa í fjárlaganefnd, töluðu flestir flokkar um í kosningabaráttunni að efla þyrfti heilbrigðisþjónustuna og að það yrði eitt helsta forgangsmál næstu ríkisstjórnar. „Því er það hálf hjákátlegt hjá heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins að tala um forgangsröðun og sátt í þessum málaflokki þegar hans eigin flokkur skilaði Landspítalanum nánast gjaldþrota til þjóðarinnar haustið 2008 sem átti ekki fyrir launum og lyfjum. Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn lagði á það ofuráherslu á sumarþinginu að minnka tekjur ríkissjóðs um marga milljarða í formi lækkunar á veiðigjöldum og skatti á gistiþjónustu,“ segir Bjarkey.

FLATUR NIÐURSKURÐUR

Versta leiðin

„Það verður að gera tvennt. Annars vegar að forgangsraða í ríkisfjármálunum og það sem ég tel vera í fremstu röð eru heilbrigðismálin því ef við glutrum þeim niður þá verður gríðarlega dýrt að byggja þau upp aftur. Síðan er hitt að það vantar stefnumótun í málaflokkinn, menn hafa frestað vandanum og gengið fram, í þessu eins og annars staðar, fyrst og fremst með flötum niðurskurði og það er versta leið sem hægt er að fara,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 2. varaformaður fjárlaganefndar.