Fagnað Halldór Orri Björnsson og Veigar Páll Gunnarsson horfast í augu og fagna fyrra marki Stjörnunnar í leiknum. Á milli þeirra er Garðar Jóhannsson.
Fagnað Halldór Orri Björnsson og Veigar Páll Gunnarsson horfast í augu og fagna fyrra marki Stjörnunnar í leiknum. Á milli þeirra er Garðar Jóhannsson. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Garðabæ Kristján Jónsson kris@mbl.is Garðbæingar sýndu í gærkvöldi að þeim er full alvara í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla þegar þeir sigruðu meistara FH 2:1 í Garðabænum.

Í Garðabæ

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Garðbæingar sýndu í gærkvöldi að þeim er full alvara í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla þegar þeir sigruðu meistara FH 2:1 í Garðabænum. Stjarnan hefur verið viðloðandi þá baráttu undanfarin ár en nú virðist sem þeim hafi tekist undir stjórn Loga Ólafssonar að spila sterkari varnarleik og stöðugleikinn er meiri. Er þetta svo sem rökrétt framhald af gengi liðsins undir stjórn Bjarna Jóhannssonar síðustu árin.

Stjarnan var 1:0 yfir í meira en klukkutíma í gærkvöldi og gekk þá bærilega að halda aftur af meisturunum. Aldrei er þó hægt að afskrifa Atla Guðnason en honum tókst að jafna á 89. mínútu fyrir FH. Þrátt fyrir að aðgerðir hans í leiknum hafi sjaldnast heppnast þá virðist hann alltaf eiga ás uppi í erminni.

Þegar þarna var komið sögu hafði Logi þegar skipt framherjunum skæðu Garðari Jóhannssyni og Veigari Páli Gunnarssyni af leikvelli. Þó Kristinn Jakobsson hafi bætt fjórum mínútum við leiktímann þá átti maður ekki von á því að Stjarnan hefði kraft í að búa til mark en liðið lék á dögunum í 120 mínútur gegn Fylki í bikarnum. Varamaðurinn Gunnar Örn Jónsson var hins vegar í hlutverki hetjunnar og skoraði sigurmarkið með föstu skoti úr þröngu færi. „Ég hugsaði lítið og hugsaði bara um að negla enda lítið annað hægt að gera í svona þröngu færi. Þetta var sambland af heppni og ákveðni myndi ég segja,“ sagði Gunnar þegar Morgunblaðið tók hann tali þegar sigurinn var í höfn.

Arnar Darri stóð fyrir sínu

Gunnari fannst sigurinn vera afar sætur eins og gefur að skilja enda var dramatíkin til staðar á lokamínútunum. „Þetta var hrikalega sætt, sérstaklega á móti svona sterku liði. Þetta var hálf súr staða á tímabili þegar leikurinn var dottin niður jafntefli eftir að við höfðum hann nánast í höndum okkar,“ sagði Gunnar sem lítið hefur komið við sögu í sumar enda missti hann af fyrstu umferðum deildarinnar.

„Ég á alveg nóg inni en það er mikil samkeppni í liðinu. Ég missti af fyrstu sex eða sjö leikjunum og það er bara frábært að fá að koma inn á og ná að skila einhverju til félagsins.“

Stjarnan tefldi fram Arnari Darra Péturssyni í markinu að þessu sinni þar sem Ingvar Jónsson var í leikbanni. Frammistaða Arnars í þessum leik ætti að gera Loga erfitt fyrir að velja byrjunarliðið í næsta leik. Arnar var besti maður Stjörnunnar ásamt Halldóri Orra Björnssyni. Hjá FH bjargaði Róbert Örn Óskarsson einnig nokkrum sinnum og Emil Pálsson var frískur á miðjunni. Vörn Stjörnunnar fær hrós fyrir hversu vel þeim gekk að halda sóknarmönnum FH í skefjum enda er meira en að segja það fyrir íslenskt lið að ná því.

Stjarnan – FH 2:1

Samsungvöllur, Pepsi-deild karla, 11. umferð, fimmtudag 11. júní 2013.

Skilyrði : Gola, skýjað og 7 stiga hiti. Gervigras.

Skot : Stjarnan 14 (5) – FH 11 (7).

Horn : Stjarnan 6 – FH 7.

Lið Stjörnunnar : (4-4-2) Mark : Arnar Darri Pétursson. Vörn : Jóhann Laxdal, Daníel Laxdal, Martin Rauschenberg, Robert Sandnes. Miðja : Kennie Chopart, Michael Præst, Atli Jóhannsson, Halldór Orri Björnsson Sókn : Veigar Páll Gunnarsson(Gunnar Örn Jónsson 82.), Garðar Jóhannsson. (Tryggvi Bjarnason 61.)

Lið FH : (4-3-3) Mark : Róbert Örn Óskarsson. Vörn : Jón Ragnar Jónsson, Freyr Bjarnason Pétur Viðarsson, Sam Tillen Miðja : Dominic Furness (Albert Ingason 43.), Emil Pálsson, Björn Daníel Sverrisson. Sókn : Ólafur Páll Snorrason (Ingimundur Níels Óskarsson 61.), Kristján Gauti Emilsson(Atli Viðar Björnsson 76.), Atli Guðnason.

Dómari : Kristinn Jakobsson – 7.

Áhorfendur : 1.383.

1:0 Halldór Orri Björnsson 25. Tók boltann skemmtilega með sér eftir langa sendingu frá Atla. Skoraði af stuttu færi vinstra megin úr teignum.

1:1 Atli Guðnason 89. Albert skallaði boltann laglega fyrir Atla sem kom á ferðinni inn í teiginn og skoraði með skoti sem hafði viðkomu í varnarmanni.

2:1 Gunnar Örn Jónsson 90. Tryggvi skallaði boltann fyrir Gunnar sem var hægra megin í teignum og þrumaði boltanum upp í þaknetið úr þröngu færi.

Gul spjöld:

Engin

Rauð spjöld:

Engin.

M

Arnar Darri Pétursson (Stjörnunni)

Jóhann Laxdal (Stjörnunni)

Martin Rauschenberg (Stjörnunni)

Daníel Laxdal (Stjörnunni)

Robert Sandnes (Stjörnunni)

Atli Jóhannsson (Stjörnunni)

Halldór Orri Björnsson (Stjörnunni)

Róbert Örn Óskarsson (FH)

Sam Tillen (FH)

Emil Pálsson (FH)

Atli Guðnason (FH)