Barátta Hólmfríður Magnúsdóttir og Solveig Gulbrandsen í skallaeinvígi. Ada Hegerberg og Katrín Jónsdóttir fylgjast grannt með framvindunni.
Barátta Hólmfríður Magnúsdóttir og Solveig Gulbrandsen í skallaeinvígi. Ada Hegerberg og Katrín Jónsdóttir fylgjast grannt með framvindunni. — Ljósmynd/Guðmundur Svansson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2013 Víðir Sigurðsson í Kalmar vs@mbl.is Hversu miklu getur eitt mark í fótboltaleik breytt? Þegar komið var fram á 87.

EM 2013

Víðir Sigurðsson í Kalmar

vs@mbl.is

Hversu miklu getur eitt mark í fótboltaleik breytt? Þegar komið var fram á 87. mínútu á hinum glæsilega leikvangi Kalmar Arena, í borginni sögufrægu á suðausturströnd Svíþjóðar, í gær var útlitið ekki sérlega gott. Ísland var 0:1 undir gegn Noregi, framundan leikur gegn Þýskalandi, og þrátt fyrir mjög góða viðleitni í seinni hálfleik virtist leikurinn vera að fjara út fyrir íslenska liðinu.

En þá kom eitt af þessum atvikum sem skilur bestu leikmennina frá hinum. Sara Björk Gunnarsdóttir var táningur í síðustu Evrópukeppni, en núna er hún lykilmaður. Sara tók af skarið, óð inn í norska vítateiginn á ögurstundu og krækti þar í vítaspyrnu. Á punktinn fór Margrét Lára Viðarsdóttir, með alla sína sjúkrasögu og misheppnuðu vítaspyrnuna gegn Frökkum fyrir fjórum árum á bakinu. En líka með ómælda reynslu í farteskinu. Yfirveguð, brosandi og ísköld sendi Eyjamærin boltann í norska markið. Lokatölur 1:1 og Ísland er svo sannarlega komið í baráttuna um að fara í 8 liða úrslit.

Þýskaland í nýju samhengi

Markalausa jafnteflið sem Þýskaland og Holland gerðu í gærkvöld breytir stöðunni eflaust eitthvað. Raddir voru uppi í gærkvöld að nú ætti Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari að hvíla lykilmenn gegn Þjóðverjum og leggja allt í sölurnar í Hollandsleiknum. En nú er Þýskaland líka búið að tapa stigum og það setur riðilinn í nýtt samhengi.

Ég skrifaði fyrir mótið að ég vissi ekki við hverju væri að búast af íslenska liðinu eftir skrykkjótt gengi og frammistöðu á árinu. Það viðhorf hafði ekkert breyst í hálfleik. Íslenska liðið varðist vissulega skipulega í fyrri hálfleik, en skapaði ákaflega lítið fram á við, mikið var um slakar sendingar, lítið varð úr efnilegum sóknum, og útlit var fyrir að norska liðið myndi sigla þremur stigum í örugga höfn.

En það breyttist svo sannarlega. Ísland tók leikinn meira og minna í sínar hendur eftir hlé. Allt annað var að sjá til flestallra leikmanna og tilfærslur í stöðum sem Sigurður gerði virkuðu vel. Ekki síst að draga Margréti Láru aðeins aftar. Hún var fremst á miðjunni í seinni hálfleik og bjó til fullt af tækifærum fyrir samherjana. Þetta er nýja Margrét Lára, ólík hinni beinskeyttu gömlu en óhemju klók og sniðug í að koma samherjunum í færi. Ekki síst Hólmfríði Magnúsdóttur sem var besti leikmaður Íslands í fyrri hálfleik en vantaði herslumuninn til að gera meira.

Sara nálgast markmiðið

Sara Björk náði sér ekki fyllilega á strik í fyrri hálfleik en hún hreinlega tók leikinn í sínar hendur í þeim síðari. Í þessum ham er hún að nálgast markmiðið í auglýsingunni – að verða besti miðjumaður heims. Hún á nokkuð í það enn, en Sara er komin upp á næsta þrep. Hún var fremst, hún var öftust, hún gerði allt í seinni hálfleik sem tókst ekki í þeim fyrri.

Guðbjörg Gunnarsdóttir sýndi að við eigum tvo heimsklassa markverði og það verður erfitt fyrir Sigurð að setja hana út eftir örugga frammistöðu í gærkvöld. Sif Atladóttir entist aðeins í 60 mínútur en var óhemju mikilvæg allan þann tíma og Katrín Jónsdóttir steig varla feilspor við hennar hlið. Báðar lentu í vandræðum þegar Norðmenn skoruðu markið en áttu annars nánast gallalausan leik.

„Karakter“ er dálítið óskilgreint hugtak í íþróttum en það er samt orðið sem mér finnst eiga best við um seinni hálfleik íslenska liðsins í gær. Mótlætið hefur verið mikið í ár, fólk hefur haft minni trú á liðinu en oftast áður í aðdraganda keppninnar, og það hafði eflaust ekkert breyst að fyrri hálfleik loknum. „Karakter“ snýst ekki síst um að ná fram góðum úrslitum gegn jafngóðum eða betri andstæðingi. Mér fannst lengi vel norska liðið betra í gær, og alltaf vera líklegt til að skora aftur þegar minnst varði. En það var slegið út af laginu, íslensku stúlkurnar voru ekki sáttar við að hafa bara jafnað, þær vildu meira og reyndu á þeim stutta tíma sem gafst. Þær eru með þennan umtalaða „karakter“ og nú bíðum við og sjáum hversu langt hann fleytir þeim.

0:1 Kristin Hegland 26. fékk sendingu innfyrir miðja vörn Íslands og skoraði af harðfylgi með skoti í stöng og inn.

1:1 Margrét Lára Viðarsdóttir 87. úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Söru Björk Gunnarsdóttur.

Gul spjöld:

Hólmfríður (Íslandi) 34. (brot)

Rauð spjöld:

Engin.

MM

Sara Björk Gunnarsdóttir

M

Guðbjörg Gunnarsdóttir

Katrín Jónsdóttir

Sif Atladóttir

Hólmfríður Magnúsdóttir

Ísland – Noregur 1:1

Kalmar Arena, úrslitakeppni EM kvenna, B-riðill, fimmtudag 11. júlí 2013.

Skilyrði : 18 stiga hiti, sól, gola, flottur völlur.

Skot : Ísland 15 (9) – Noregur 11 (4).

Horn : Ísland 1 – Noregur 5.

Lið Íslands : (4-4-2) Mark: Guðbjörg Gunnarsdóttir. Vörn: Dóra María Lárusdóttir, Sif Atladóttir (Glódís Perla Viggósdóttir 62.), Katrín Jónsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja: Fanndís Friðriksdóttir (Harpa Þorsteinsdóttir 62.), Dagný Brynjarsdóttir (Katrín Ómarsdóttir 82.), Sara Björk Gunnarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir. Sókn: Rakel Hönnudóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir.

Lið Noregs: (4-3-3) Mark: Ingrid Hjelmseth. Vörn: Maren Mjelde, Trine Rönning, Marit Christensen, Toril Akerhaugen. Miðja: Solveig Gulbrandsen, Ingvild Isaksen, Ingvild Stensland (Lene Mykjåland 75.) Sókn: Caroline Hansen (Leni Kaurin 84.), Ada Hegerberg (Elise Thorsnes 75.), Kristine Hegland.

Dómari : Kataliln Kulcsár, Ungverjalandi.

Áhorfendur : 3.867.