Mótmæli Grænfriðungar bundu sig við landfestar skips í Hamborg.
Mótmæli Grænfriðungar bundu sig við landfestar skips í Hamborg. — Ljósmynd/Af vef Greenpeace
Samskip ætla að hætta að flytja hvalkjöt frá Íslandi eftir að hafnir í Hollandi og Þýskalandi ákváðu að hætta að umskipa hvalkjöti þar.

Samskip ætla að hætta að flytja hvalkjöt frá Íslandi eftir að hafnir í Hollandi og Þýskalandi ákváðu að hætta að umskipa hvalkjöti þar.

„Okkur sýnist að þessu sé sjálfhætt því að þær hafnir sem hvalkjötið hefur verið flutt til eru búnar að setja bann á þessar afurðir. Þannig að okkur eru allar bjargir bannaðar í þessum efnum,“ sagði Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, í samtali við mbl.is.

Sex gámar stöðvaðir

Samskip flutti í júní sex gáma af hvalkjöti til Rotterdam í Hollandi. Þar var gámunum skipað upp í annað flugningaskip sem átti að flytja þá i til Japans. Tollayfirvöld létu hins vegar flytja gámana aftur í land á meðan kannað var hvort gögn sem fylgdu sendingunni væru í lagi. Í millitíðinni hélt flutningaskipið, sem flytja átti kjötið frá Hamborg, för sinni áfram. Þegar skipa átti kjötinu um borð í annað flutningaskip komu Grænfriðungar í veg fyrir að það tækist með mótmælum, m.a. með því að binda sig við landfestar skipsins. Varð úr að skipið hélt úr höfn án þess að hafa gámana sex með hvalkjötinu um borð. Samskip lýstu því síðan yfir í Rotterdam á þriðjudag, að hvalkjötið yrði flutt til Íslands á ný.

„Þjóðverjar hafa stöðvað þetta í Hamborg og eru að kalla eftir banni í öllum höfnum í Þýskalandi og þá er orðið mjög erfitt að koma þessu til Asíu,“ segir Anna Guðný. Langmestur flutningur frá Íslandi hafi farið í gegnum Rotterdam og Hamborg. „Þegar aðgenginu að markaði er lokað þá er þetta orðið svolítið erfitt.“ hjorturjg@mbl.is