Þuríður Hilda Hinriks, kölluð Syja, fæddist í Reykjavík 23. nóvember 1921. Hún lést á Dvalarheimilinu Grund 23. júní 2013.

Þuríður Hilda (Syja) var jarðsungin frá Háteigskirkju 2. júlí 2013.

Elsku besta amma mín. Um leið og ég er ótrúlega sorgmædd yfir að þú sért farin þá er ég líka mjög þakklát fyrir að þú þurftir ekki að þjást lengi. Þú varst alltaf hress, brosandi og til í spjall. Þú náðir háum aldri og varst svo hraust, enda hugsaðir þú vel um sjálfa þig allt þitt líf, reglusöm, nægjusöm og með svo stórt hjarta að það var notalegt að vera í kringum þig. Ég gat komið með vinkonur í heimsókn og þú tókst vel á móti öllum. Þeir sem þekktu þig vita hvað þú varst frábær. Þú hafðir áhrif á líf allra sem fengu að kynnast þér og breyttir þeim. Þú áttir marga góða að. Dætur þínar, Anna og amma Unnur sem hugsuðu svo vel um þig ásamt fjölskyldum. Pabbi, sem var þér svo tryggur að það leið varla dagur að hann heimsótti þig ekki.

Ég ætla að rifja upp örfáar minningar um þig sem fá mig til að brosa. Ég hló svo mikið þegar ég fór í gegnum sokkaskúffuna mína einn daginn þar sem flestallir sokkar sem ég átti voru frá þér. Þá hafði ég komið til þín sokkalaus í skónum en þú náðir í hreina sokka og krafðist þess að ég færi í þá og væri í þeim þegar ég færi. Ég fór aldrei tómhent heim frá þér, ýmist með krydd í poka, múslí, skorna ávexti sem ég átti að gefa Aldísi, gjafir, græðandi krem og svona mætti lengi telja. Það fór heldur enginn svangur út frá þér. Þegar ég var yngri og pabbi bjó í kjallaranum man ég eftir því að hafa komið upp á morgnana og þú gafst mér alltaf eitthvað gott að borða meðan pabbi svaf lengur. Ég man líka að þú sóttir mig svo oft á gæsluvöllinn í Meðalholtinu, fórst með mig heim og gafst mér kakómalt sem minnir mig alltaf á þig, enda fékk ég alltaf svoleiðis hjá þér ásamt bestu pönnukökum í heimi. Það var ekki nóg að gefa mér pönnukökur heldur gafstu mér pönnuna og vildir að ég myndi fara heim að æfa mig. Með þig í símanum gerði ég svo mínar fyrstu pönnukökur.

Ég er svo glöð að Aldís mín fékk að kynnast þér í rúmlega 6 ár og situr uppi með minningar um þig og auðvitað fullt hús gjafa frá þér. Hún sagði sérstaklega við mig um daginn að hún ætlaði að passa sérstaklega vel upp á gjafirnar frá þér. Hún fór inn í herbergi að tína saman allt sem þú hafðir gefið henni og vildi stilla því upp á ákveðna staði. Það var svo krúttlegt. Síðasta skiptið okkar saman ætla ég að geyma vel í minningunni, en þá varstu svo glöð þegar ég kom á Grund, hafðir lítið farið niður. Veðrið var gott svo þú vildir endilega kíkja með mér út í sólina. Svo sátum við saman og fengum okkur kaffi og kex. Þú varst svo ánægð með að hafa kíkt út í sólina. Ég kvaddi þig svo, alveg grunlaus um að þetta yrði síðasta skiptið sem ég myndi hitta þig. Það sem gleður mig er að síðasta minningin um þig er hvað þú varst glöð, spjallaðir helling við Kristján sem brosti svo mikið til þín á móti. Ég á eftir að sakna þín mjög mikið, sakna þess að koma í Stórholtið, sakna hlátursins og gleðinnar sem var alltaf til staðar. Það var svo auðvelt að gleðja þig, þú varst svo nægjusöm. Nú ertu komin til afa Ingólfs og þið getið loksins verið saman á ný.

Elsku amma, guð geymi þig, minningin um þig mun alltaf lifa.

Þín

Unnur Margrét.

mbl.is/minningar