Ég vatt mér fljótlega upp að fimm karlmönnum sem stóðu saman við mótmælin, klæddir í þessa ógeðslegu bleiku boli og spurði þá hvort þetta kæmi þeim í raun eitthvað við.

Ástin er eitthvað sem ég ætla að fullyrða að við sækjumst öll eftir. Allir eiga rétt á því að verða ástfangnir og að ást þeirra verði viðurkennd. Það er því miður ekki svo alls staðar í heiminum þar sem sums staðar er enginn vilji til þess að virða ást ef hún er á milli einstaklinga af sama kyni.

Ég fæ það ekki skilið af hverju fólk þurfi alltaf að skipta sér af öðru fólki og reyna að haga lífi annarra með sínum ósanngjörnu hugmyndum um hvernig „eðlileg“ ást eigi að vera.

Á dögunum gekk vinur minn að eiga eiginmann sinn í hefðbundri hjónavígslu og á svipuðum tíma gekk vinkona mín að eiga eiginmann sinn. Var um að ræða einn stærsta dag í lífi þessara einstaklinga sem einkenndist af ást og hamingju, þar sem vinir og ættingjar komu og fögnuðu ástinni með þeim. Enginn munur var á brúðkaupunum tveim þó það hafi ekki verið brúður í öðru þeirra. Það er bara engan veginn nauðsynlegt þegar ástin er annars vegar og ekkert er jafn fallegt og engir dagar jafn gleðilegir og þegar brúðkaupi er fagnað.

Ég var stödd í París í Frakklandi þegar ég tók eftir því að fjölmargir á götum borgarinnar klæddust sérmerktum bolum, jafnt ungir sem aldnir og stundum heilu fjölskyldurnar. Á bolunum var mynd af fjölskyldu sem var karlmaður, kona ásamt tveim börnum. „Eðlilega“ fjölskyldan að þeirra mati, en bolirnir voru gerðir til að mótmæla nýjum lögum í landinu um að leyfa giftingar og ættleiðingar samkynhneigðra.

Eftir að ég hafði bölvað þessu fólki alla ferðina í laumi við frænku mína sem búsett er í París lá leið okkar að Sigurboganum, það var hins vegar ekki greið leið sökum mikilla mótmæla sem geisuðu um alla borg. Á þessum tímapunkti höfðu lögin nú þegar verið samþykkt.

Þegar við loksins komumst að Sigurboganum voru gríðarlega hávær og mikil mótmæli. Frænku minni leist ekkert á blikuna þegar ég ákveð að strunsa inn í mótmælin og athuga hvað gengi eiginlega að þessu fólki, sem barðist gegn ást annarra einstaklinga. Eitthvað sem kemur þeim einfaldlega ekki við. Ég vatt mér fljótlega upp að fimm karlmönnum sem stóðu saman við mótmælin, klæddir í þessa ógeðslegu bleiku boli og spurði þá af hverju þeir væru að mótmæla og hvort þetta kæmi þeim í raun eitthvað við.

Þeir reyndu að svara á bjagaðri ensku um að það væri ekki rétt að leyfa giftingar og ættleiðingar samkynhneigðra. „Allir eiga rétt á að eiga bæði móður og föður,“ sagði einn og var ég fljót að grípa inn í og sagði að sumir ættu hvorugt og aðrir aðeins annað. Þá væri nú frábært að eiga tvo feður eða tvær mæður. Þeim leist ekkert mjög vel á æsinginn í mér og reyndu að útskýra mál sitt enn frekar, en ég gat bara ekki fengið þá skilið að eitthvað væri eðlilegt og annað ekki.

Ég ákvað því að ljúka samræðunum við þessa menn sem ég átti ekkert sameiginlegt með og sagði. „Ef þið vilduð vita það kem ég frá Íslandi. Þar hafa samkynhneigðir öll sömu réttindi og aðrir og er hvergi mismunað. Ég er fáránlega stolt af því að vera Íslendingur.“

Þessi upplifun dró aðeins úr fegurð Parísarborgar og það er erfitt að vita til þess að í fjölmörgum löndum er staðan enn verri.

Það á ekkert að vera eðlilegt við ástina, hún á ekki að vera sett í skorður eða leyfð aðeins á einn hátt en ekki annan. Látum ástina sigra því hún er miklu sterkari en fáfróðir einstaklingar úti í heimi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir aslaug@mbl.is