Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Við ákváðum að Orkuveitan gæti gengið að því tilboði sem liggur fyrir. Í þeirri ákvörðun studdumst við við verðmat tveggja óháðra aðila.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Við ákváðum að Orkuveitan gæti gengið að því tilboði sem liggur fyrir. Í þeirri ákvörðun studdumst við við verðmat tveggja óháðra aðila. Jafnframt var stuðst við mat sérfræðinga Orkuveitunnar og umsögn og áhættugreiningu fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, um þá ákvörðun meirihlutans að samþykkja sölu Orkuveitunnar á svonefndu Magma-skuldabréfi til Landsbréfa.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur stjórn OR tekið svonefndu „B“ tilboði Landsbréfa en það hljóðar upp á 8,6 milljarða í tveim greiðslum. Greiðast 5.160 milljónir hinn 30. ágúst 2013 en 3.440 milljónir 14. des. 2016

Dagur segir að tekið hafi verið tillit til fjölmargra þátta við ákvörðun borgarráðs.

„Það er margt sem þarf að horfa til, bæði tímasetningar sölunnar og annars. Heildarmatið leiddi til þeirrar niðurstöðu að við féllumst á beiðni Orkuveitunnar.“

Hefði hugsanlega mátt selja fyrr

– Hvaða skoðun hefur þú á tímasetningunni?

„Skuldabréfið hefur lengið verið til sölu og það hefði hugsanlega mátt selja það fyrr. Ég skal ekki segja um það. Við tókum afstöðu til tilboðs sem er á borðinu núna og það getur haft kosti og galla að taka því. Með því að heimila sölu bréfsins tökum við út stóra áhættu úr rekstri Orkuveitunnar. Því hefði fylgt áhætta að eiga skuldabréfið áfram. Þetta byggist á spám inn í framtíðina.“

– Telurðu 8,6 milljarða viðunandi verð?

„Já, annars hefðum við ekki fallist á þetta.“

Fyrirvari um fjármögnun

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir að í tilboði Landsbréfa sé fyrirvari um að tilboðsgjafi hafi tíma til að leita fjármögnunar áður en greitt er fyrir skuldabréfið. Hann telur aðspurður að tilboð Landsbréfa sé gott.

– En hvernig verður fénu varið?

„Það er nú þannig að Orkuveitan er ekki mjög fjáð. Reksturinn er hins vegar mjög góður en lausafé er af skornum skammti. Veltufjárhlutfall fyrir næsta ár er alltof lágt, þá á ég við hlutfall lausafjár á næsta ári á móti þeim greiðslum sem þá falla til. Það er talið eðlilegt að hlutfallið sé í kringum 1. Veltufjárhlutfallið er nú kringum 0,4. Við erum hins vegar ekki að selja bréfið af því að okkur gangi illa. Okkur hefur þvert á móti gengið betur en Planið svokallaða gerði ráð fyrir. Það hefur alltaf verið veikleiki í Planinu hvað veltufjárhlutfallið er lágt allan greiðslutímann. Það þýðir að það má ekkert koma upp á. Við viljum komast í 1 í veltufjárhlutfalli en höfum ekki séð leiðir til þess. Það er í því fólgin áhættuvörn að eiga meira fé í sjóðum til að mæta sveiflum í rekstrinum. Við erum því ekki að selja bréfið til að eyða fénu,“ segir Bjarni.

Spurður hverjir séu að baki tilboði Landsbréfa segir Bjarni að það kæmi honum ekki á óvart ef lífeyrissjóðir yrðu meðal kaupenda.

Jón Steindór Valdimarsson, stjórnarformaður Landsbréfa, sagði það trúnaðarmál hverjir stæðu að baki tilboðinu. Stefnt sé að því að vinna „hratt og örugglega“ að fjármögnun.