Guðrún Guðmunda Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 9. mars 1979. Hún lést í Noregi 13. júní 2013.

Foreldrar hennar eru Unnur Guðrún Gunnarsdóttir og Sigurður Helgi Hermannsson. Guðrún var elst þriggja systkina. Þau eru Kristjana Engilráð og Hermann Gunnar sem er yngstur.

Guðrún ólst upp í Mosfellsbæ en á unglingsárunum var skónum slitið í Eyjafjarðarsveit. Hún fór 18 ára til Noregs til starfa sem au pair og kynntist þá ástinni sinni, Hagbarði Valssyni, f. 1974. Börn þeirra eru Rakel María, f. 1999, Róbert Hólm, f. 2002, Regina Rós, f. 2011, og Rósa Jóna, f. 12. júní 2013.

Móðurhlutverkið var Guðrúnu Guðmundu afar mikilvægt, hún var mild og góð móðir og hlúði vel að börnum sínum. Hún hafði yndi af tónlist og lærði á þverflautu á uppvaxtarárum sínum. Hún vann á leikskóla um tíma, lærði bókhald í seinni tíð og var orðin liðsstjóri hjá Tupperware.

Útför Guðrúnar fór fram frá Hakadal-kirkju í Nittedal 24. júní 2013. Jarðsett var í Nittedal-kirkjugarði.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði.)

Heimurinn hrundi eftir símtalið frá honum Habba að morgni fimmtudagsins 13. júní. Það litla sem ég man frá því símtali var: Guðrún fór í hjartastopp, litlu barni bjargað eftir keisaraskurð á stofugólfinu en Guðrún lést. Nei, nei, nei, þetta getur ekki verið rétt, hún var bara 34 ára, komin 31 viku á leið af sínu fjórða barni, nýbúin að ferma sitt fyrsta, þessi yndislega manneskja í alla staði. Mikið finnst okkur sá sem öllu ræður vera ósanngjarn, að hrifsa unga móður frá maka sínum og fjórum börnum en því getur enginn breytt.

Leiðir okkar Guðrúnar lágu saman í Ósló sumarið 1997, við vorum báðar nýkomnar út sem Au-pair, bjuggum í sama hverfi og ákváðum að hittast. Á móti mér tók brosmild, ljóshærð, yndisleg stelpa og urðum við strax óaðskiljanlegar. Guðrún hafði alla þá kosti sem hægt var að óska sér í góðri vinkonu. Hún var traust, góð, skemmtileg, hláturmild og yfirveguð. Það tók ekki langan tíma fyrir hana að heilla fólk í kringum sig. Fljótlega kynntist Guðrún honum Habba sínum og ég Óla og þá varð ekki aftur snúið. Við fjögur, ásamt honum Sævari, brölluðum margt skemmtilegt á þessum tíma. Í gegnum árin hafa þær minnningar oft verið dregnar fram við mikinn hlátur.

Guðrún var rétt rúmlega tvítug þegar hún og Habbi eignuðust frumburð sinn hana Rakel Maríu. Róbert Hólm kom svo þremur árum seinna, Regína Rósa fæddist 2011 og stuttu áður en Guðrún kvaddi þennan heim fæddist Rósa Jóna. Börn Guðrúnar voru henni allt, hún og Rakel María voru bestu vinkonur. Líf hennar var ekki alltaf dans á rósum frekar en hjá öðrum, en hún tók á hlutunum af miklu æðruleysi og yfirvegun, eins og henni einni var líkt.

Útför Guðrúnar fór fram frá Hakadal kirkju í Nittedal mánudaginn 24. júní. Himinninn grét ásamt fjölskyldu og vinum sem fylgdu henni síðasta spölinn. Umgjörðin öll var falleg og ljúf eins og elsku Guðrún okkar var.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Það er svo margt sem við fjölskyldan viljum þakka Guðrúnu fyrir, allar samverustundirnar, ferðirnar okkar og spjallið í sófanum. Við eigum eftir að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa Habba og krökkunum og varðveita minningu hennar saman.

Elsku Habbi, Rakel María, Róbert Hólm, Regína Rós og Rósa Jóna, Unnur, Sigurður Helgi, Kristjana, Hermann Gunnar og fjölskyldan öll og vinir, við sendum hugheilar samúðarkveðjur.

Guðrúnar mun ávallt lifa í hjörtum okkar.

Margrét, Óli Davíð og Inga Birna.