Guðlaug Þorleifsdóttir fæddist í Reykjavík 17. apríl 1935. Hún lést á Landspítalanum 24. júní 2013.

Útför Guðlaugar fór fram frá Bústaðakirkju 2. júlí 2013.

Gulla systir mín kvaddi þetta líf 24. júní sl. eftir langvarandi veikindi. Gerð var aðgerð á henni vegna krabbameins í meltingarfærum í janúarlok sl. Því miður tókst ekki að komast fyrir meinið. Eftir þriggja vikna dvöl á sjúkrahúsinu var hún send heim og var allhress í anda og fór ferða sinna sem áður næstu vikur en hrakaði uns hún var flutt aftur á Landspítalann og var þar í líknandi meðferð í réttar fjórar vikur. Allan þennan tíma var hún með fullri meðvitund og talaði rólega og skýrt um það sem framundan var. Gekk hún frá framkvæmd útfarar sinnar og huggaði sína nánustu eftir bestu getu. Með lífi sínu síðustu vikurnar gaf hún gott fordæmi.

Gulla var yngst okkar sex systkina ásamt tvíburabróður sínum Leifi. Við ólumst upp á Hjallalandi í Kaplaskjóli og kölluðum okkur Hjallalandssystkinin. Við fyrstu kynni mín af henni líkti ég henni við kött. Þau fæddust heima. Þá var ég næstum sjö ára og hrópaði upp er ég heyrði fyrsta grátinn: „Það mjálmar tvennt inni.“ Hún varð fljótt sjálfstæð og ákveðin eins og sjá má af því að í vinnuferð til Siglufjarðar 26 ára gömul kynntist hún eiginmanni sínum, Óskari Friðrikssyni, og eftir þrjár vikur voru þau gift. Hún var skelegg og drífandi, lærði snyrtifræði og svæðanudd. Hún vann í nokkur ár við innheimtu hjá Útvarpinu og lengst af hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur við mælaálestur.

Gulla varð þriggja barna móðir og ól börn sín upp við heiðarleika og reglusemi sem skilaði þeim vel í stöðu góðra foreldra og þjóðfélagsþegna. Við andlát sitt átti hún níu barnabörn, hið elsta 23 ára og hið yngsta hátt á öðru ári. Hún var góð amma. Með þessum orðum kveðjum við systkinin okkar kæru systur. Blessuð sé minning hennar.

Hörður Þorleifsson.