Sláandi Solondz er virkilega góður handritshöfundur.
Sláandi Solondz er virkilega góður handritshöfundur.
Fyrir ekkert svo löngu síðan var sýnd kvikmynd eftir bandaríska kvikmyndaleikstjórann og handritshöfundinn Todd Solondz í sjónvarpinu. Í stuttu máli sagt er maðurinn einhver hæfileikaríkasti kvikmyndagerðarmaður sem komið hefur fram í langan tíma.

Fyrir ekkert svo löngu síðan var sýnd kvikmynd eftir bandaríska kvikmyndaleikstjórann og handritshöfundinn Todd Solondz í sjónvarpinu. Í stuttu máli sagt er maðurinn einhver hæfileikaríkasti kvikmyndagerðarmaður sem komið hefur fram í langan tíma. Kvikmyndir á borð við Happiness, Welcome to the Dollhouse og Palindromes eru í raun algjört skylduáhorf.

Það er ekki á færi hvers sem er að draga fram alla þá afkáralegu kima hins hefðbundna úthverfalífs sem gjarnan krauma undir yfirborðinu en það er einmitt sérkenni Solondz. Sá heimur sem kemur í ljós þegar Solondz skyggnist inn í huga hinnar viðteknu raðhúsafjölskyldu er oft á tíðum svo sjúkur að erfitt er að finnast hann ekki forvitnilegur. Tekið er á ýmsum forboðnum málefnum og í stað þess að koma þeim fyrir einhverstaðar þar sem viðtekið er að eymd þrífist, eins og gjarnan er gert, þá sýnir Solondz fram á það hvernig skíturinn getur þrifist á sótthreinsuðustu stöðum.

Handritin að kvikmyndunum, þá sérstaklega Happiness, eru svo góð að maður veltir því stundum fyrir sér hvort Solondz sé í raun sjúkur raðhúsapabbi eða hvort innsæi hans sé eingöngu svo gott.

Davíð Már Stefánsson