Ólafur Guðbjörn Skúlason
Ólafur Guðbjörn Skúlason
Eftir Ólaf Guðbjörn Skúlason: "Við fögnum umræðu um að standa vörð um heilbrigðisþjónustu og hvetjum þingmenn til að taka þátt í því verkefni að reisa heilbrigðisþjónustuna við"

Í grein sinni í Morgunblaðinu 11. júlí kallar heilbrigðisráðherra eftir þjóðarsátt um að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Segir hann meðal annars að álag á starfsfólk hafi aukist, þjónusta við sjúklinga versnað og öryggi þeirra stefnt í hættu. Hann kemur einnig inn á að atgervisflótti sé úr röðum heilbrigðisstarfsmanna og nauðsynlegt sé að forgangsraða í útgjöldum ríkisins. Ég tek heilshugar undir hvert orð með Kristjáni.

Hjúkrunarfræðingar hafa til langs tíma bent á þessi atriði sem heilbrigðisráðherra fjallar um. Við fögnum umræðu um að standa vörð um heilbrigðisþjónustu og hvetjum þingmenn og þjóðina alla til að taka þátt í því verkefni að reisa heilbrigðisþjónustuna við. Hjúkrunarfræðingar eru reiðubúnir að koma að verkefninu af fullum krafti.

Reyndin er sú að erfitt verður að ganga lengra í sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Ef skera þarf niður enn á ný er óhjákvæmilegt að skerða þjónustu við sjúklinga. Ég tel að allir séu sammála um að lengra verður ekki gengið í þeim efnum. Það má vel vera að haldið sé á lofti að þjónustan sé óbreytt og niðurskurður undanfarinna ára komi ekki niður á þjónustu við sjúklinga. Það er einfaldlega ekki rétt. Í starfi mínu sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga nýt ég þeirra forréttinda að eiga samskipti við hjúkrunarfræðinga alls staðar að af landinu. Alls staðar er sama sagan. Álag á hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn er gríðarlegt og er svo komið að margir þeirra eru að gefast upp. Við vitum öll að með auknu álagi og þreytu eykst tíðni mistaka og þau verðum við að lágmarka í störfum þar sem um líf og heilsu fólks er að tefla. Aldrei hafa fleiri hjúkrunarfræðingar farið til starfa í Noregi eins og nú í sumar. Ég hef sjaldan heyrt eins marga hjúkrunarfræðinga ræða um að nú sé komið að því að hætta í hjúkrun og læra eitthvað annað. Af þessu hef ég verulegar áhyggjur. Viljum við heilbrigðiskerfi sem er komið að bjargbrúninni með of þreytt og útbrunnið starfsfólk? Þurfum við ekki á okkar vel menntaða heilbrigðisstarfsfólki að halda innan íslenska heilbrigðiskerfisins?

Ég trúi ekki öðru en að við öll sem þjóð rísum upp og stöndum saman til varnar heilbrigðiskerfinu.

Höfundur er formaður Félags íslenkra hjúkrunarfræðinga.