Neskaupstaður Margir eru mættir á Eistnaflug og margir krakkar kældu sig í sjónum við upphaf hátíðarinnar.
Neskaupstaður Margir eru mættir á Eistnaflug og margir krakkar kældu sig í sjónum við upphaf hátíðarinnar. — asddasd
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Áslaug Arna Sigurbjörnsd. aslaug@mbl.is Það er ekkert lát á hátíðum um allt land og munu margir gera sér glaðan dag um helgina þó að það sé víða rigning í kortunum.

Sviðsljós

Áslaug Arna Sigurbjörnsd.

aslaug@mbl.is

Það er ekkert lát á hátíðum um allt land og munu margir gera sér glaðan dag um helgina þó að það sé víða rigning í kortunum.

Gert er ráð fyrir fjölda manns á Neskaupstað þar sem haldin verður hin árlega rokktónlistarhátíð Eistnaflug.

„Hér verður gott veður og gríðarlegt partí alla helgina,“ segir Stefán Magnússon framkvæmdastjóri Eistnaflugs og segist hann búast við hátt í 1.500 manns á hátíðina, en hún er nú haldin í níunda skiptið.

„Hátíðin hófst á miðvikudag, þá voru krakkatónleikar þar sem var fullt hús og plötusnúðurinn Töfri tryllti lýðinn,“ segir Stefán en að auki komu fram Skálmöld, Dimma og Sólstafir. Hátíðin stendur yfir til sunnudagsmorguns.

„Hljómsveit frá Portland sem heitir Red Fang er kannski stærsta númerið á hátíðinni,“ segir Stefán og bætir við að um 35 hljómsveitir komi fram á hátíðinni. „Við verðum í sólbaði og hlustum á góða tónlist alla helgina.“

Tónlist á allri eyjunni

Í Hrísey verður einnig mikið um tónlist, en þar verður haldin Hríseyjarhátíð um helgina þar sem áhersla er lögð á trúbadora og alla tónlist. „Markmiðið er að gestir heyri tónlist hvar sem þeir eru á eyjunni. Það er t.d. lúðrasveit um borð í ferjunni, fiðluleikur á höfninni og plötusnúður í sundlauginni auk trúbadora sem skemmta hér og þar um bæinn,“ segir Jón Gunnar Th. framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Hátíðin hefur verið haldin í 19 ár og mun m.a. KK og Eyþór Ingi skemmta gestum.

„Það er búist við mörgum og fólk er farið að streyma í eyjuna með tjöld og tjaldvagna,“ segir Jón Gunnar.

EKKERT LÁT Á ÚRKOMUNNI

Aðeins góðviðri á Austurlandi

„Þetta verður frekar vætusöm helgi og það eru lítil hlýindi í kortunum,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Veðrið fer kólnandi á öllu landinu um helgina en besta veðrið verður á Austurlandi og norðaustan til á landinu.

„Það verður hlýjast og úrkomuminnst á Austurlandi en gæti farið að rigna seint á laugardag,“ segir Þorsteinn. En ekkert lát virðist vera á úrkomu þetta sumarið og viðrar ekki vel til útilegu á Suður- og Vesturlandi.

FJÖLBREYTT DAGSKRÁ

Fjöldi hátíða um helgina

Auk Hríseyjarhátíðar og Eistnaflugs á Neskaupstað verður haldin hátíð á Stokkseyri, það er Bryggjuhátíðin „brú til brottfluttra“ þar sem verður fjölbreytt fjölskyldudagskrá og m.a. varðeldur og brekkusöngur.

Í Stöðvafirði verður haldin Pólar Festival sem er lista- og menningarhátíð. Hátíðinni er ætlað að ná saman fólki úr ólíkum áttum og margvíslegum skapandi greinum til þess að deila reynslu sinni og þekkingu. Þá er sérstök áhersla lögð á að vekja athygli á Stöðvarfirði og þeim möguleikum sem eru þar fyrir hendi til uppbyggingar og nýsköpunar.

Þá verður haldin hátíðleg Sumarhátíð Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands á Egilsstöðum þar sem keppt verður í ýmsum íþróttum t.d. boccia, strandblaki og borðtennis. Þá verður bogfimisýning á hátíðinni.