Ingibjörg Magnúsdóttir fæddist á Laugalandi í Stafholtstungum 12. desember 1933. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 15. júní 2013.

Útför Ingibjargar fór fram frá Áskirkju 28. júní 2013.

Í dag kveð ég mína ástkæru systur Ingu. Hún var yngst af okkar stóra systkinahópi – átta systur og tveir bræður – þeirra Magnúsar Finnssonar og Sigríðar Guðmundsdóttur í Stapaseli í Stafholtstungum. Það er svo erfitt að kveðja Ingu mína. Æskan var svo frjáls, fá að vera með öllum dýrunum og fuglunum, leika sér við stóran stapa eða klett með mörgum stöllum og hver með sitt bú. Öll fallegu fjöllin og vötnin. Faðir okkar veiktist mikið og lést árið 1946 og varð þá mikil breyting á okkar högum, móðir okkar gat ekki haldið búskap ein og fluttist til Reykjavíkur. Inga lauk skólagöngu í Hlöðutúni og svo fluttum við saman til Reykjavíkur, fórum í vist og gættum barna. Þannig endaði okkar barnæska og frjálsræði og við urðum að fullorðnast, tilbúnar eða ekki. Við systurnar vorum mjög samrýndar og þegar ég flutti utan 1955 skipti það litlu máli því við héldum alltaf svo góðu sambandi. Mikið mun ég sakna Ingu systur minnar, nú verða ekki fleiri heimsóknir, sungið, dansað og rifjaðar upp skemmtilegar sögur með miklum hlátrasköllum. Þú naust þess að ferðast um Ísland og líka að heimsækja önnur lönd. Sviplegur missir eiginmannsins Bjarna Þ. Bjarnasonar árið 1995 var mikil sorg sem þú tókst hetjulega á. Árið 1999 komstu í heimsókn til okkar Mikka í Flórída og þá hafðir þú kynnst ljúfmenninu Ólafi Runólfssyni, sem þú giftist svo á afmælisdaginn þinn, 12.12. 2001. Ólafur lést árið 2009. Með þessum kveðjuorðum fel ég þig í hendur Jesú: „Himnaríki verður okkar heimili.“

Nú ertu leidd, mín ljúfa,

lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa

hörmunga og rauna frí,

við Guð þú mátt nú mæla,

miklu fegri en sól

unan og eilíf sæla

er þín hjá lambsins stól.

Dóttir, í dýrðar hendi

Drottins, mín, sofðu vært,

hann, sem þér huggun sendi,

hann elskar þig svo kært.

Þú lifðir góðum Guði,

í Guði sofnaðir þú,

í eilífum andarfriði

ætíð sæl lifðu nú.

(Hallgrímur Pétursson)

Þín ætíð elskandi systir,

Anna Erla M. Ross.