Fjölhæfur Tónskáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns átti litríka ævi.
Fjölhæfur Tónskáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns átti litríka ævi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Kaldalónshátíð verður haldin í fyrsta sinn í Dalbæ á Snæfjallaströnd sunnudaginn 14. júlí, en hátíðin er eins og nafnið gefur til kynna helguð tónskáldinu og lækninum Sigvalda Kaldalóns. Dagskráin hefst kl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Kaldalónshátíð verður haldin í fyrsta sinn í Dalbæ á Snæfjallaströnd sunnudaginn 14. júlí, en hátíðin er eins og nafnið gefur til kynna helguð tónskáldinu og lækninum Sigvalda Kaldalóns. Dagskráin hefst kl. 18 með sýningu Kómedíuleikhússins á einleik um tónskáldið, sem frumsýndur var á Ísafirði fyrr á þessu ári. Að sýningu lokinni fer fram sögustund um ár Kaldalóns við Djúpið og því næst verða Viðar Guðmundsson og Snorri Hjálmarsson með tónleika þar sem þeir flytja nokkrar af helstu perlum tónskáldsins.

„Það er tilvalið að mæta snemma og njóta náttúrunnar á svæðinu,“ segir Elfar Logi Hannesson, leikari og forsprakki Kómedíuleikhússins, um leið og hann fagnar frumkvæði ábúenda í Dalbæ sem áttu hugmyndina að Kaldalónshátíðinni. Aðspurður um einleik sinn um tónskáldið segir hann um dramatíska sögu að ræða. „Sigvaldi Kaldalóns átti litríka ævi. Hann tók við læknisembætti í einu afskekktasta og víðfeðmasta læknishéraði landsins, Nauteyrarhéraði, árið 1910. Hann bjó og starfaði í Djúpinu í ein ellefu ár, en varð frá að hverfa þegar hann fékk berkla. Hann leitaði sér lækningar á berklaspítala í Danmörku og þar læt ég verkið gerast,“ segir Elfar Logi sem bregður sér í hlutverk tónskáldsins í einleiknum sem hann samdi sjálfur.

Hann fílaði fólkið

„Djúpið hafði gríðarleg áhrif á Kaldalón, bæði náttúran og Djúpmenn. Hann fílaði fólkið og sveitungarnir fíluðu hann líka. Hann var innblásinn af náttúrunni og segir sjálfur að þarna hafi hann komist á skrið sem listamaður,“ segir Elfar Logi og bendir á að þau ellefu ár sem Sigvaldi Kaldalóns bjó í Djúpinu hafi hann, þrátt fyrir mikið annríki sem læknir, samt samið um hundrað lög. „Þeirra á meðal eru mörg hans kunnustu verka, s.s. „Ég lít í anda liðna tíð“, „Hamraborgin“, „Þú eina hjartans yndið mitt“ og „Sofðu góði sofðu“. Í Djúpinu kynntist hann líka Höllu skáldkonu, sem bjó á næsta bæ við hann, og samdi allmörg lög við ljóð hennar,“ segir Elfar Logi og tekur fram að helstu perlur tónskáldsins séu fluttar í sýningunni, en Dagný Arnalds sér um píanóundirleik. Þess má að lokum geta að miðaverð á hátíðina er 2.900 krónur og eru miðar seldir við innganginn.

Leiðrétting 13. júlí

Ranglega var sagt að ábúendur í Dalbæ stæðu fyrir Kaldalónshátíðinni sem fram fer á morgun. Hið rétta er að Snjáfjallasetur stendur fyrir hátíðinni í samvinnu við Kómedíuleikhúsið. Eru hlutaðeigendur beðnir velvirðingar á þessum mistökum.