Jón Hilmar Hallgrímsson fæddist í Reykjavík 20. september 1978. Hann lést 18. júní 2013.

Útför Jóns Hilmars fór fram frá Grafarvogskirkju 3. júlí 2013.

Elsku drengurinn minn. Nú ert þú kominn á góðan stað þar sem umburðarlyndi og kærleikur ríkir og Hanna amma umvefur þig, drenginn sem hún elskaði svo mikið, en við hin fáum að syrgja og þú að hvíla í friði.

Við elskuðum allt það góða í þér. Þú varst alltaf góður við fjölskylduna þína og hélst okkur utan við dimma heiminn, en fáir vita ástæðuna hvers vegna þú lentir þar. Foreldrar þínir eru yndislegt fólk, en leiðir þeirra lágu ekki saman. Pabba þinn þykir mér mjög vænt um, þann góða dreng, og mamma þín er umburðarlyndasta manneskja sem ég þekki og elskaði þig skilyrðislaust. Þú ferð ekki úr þessum heimi án saknaðar, um dimmu hliðina látum við guð dæma. Í dimma heiminum eru tvær hliðar á öllum málum, svo ég vil ekki að þú sért dæmdur einn. Þú gerðir ekki alltaf réttu hlutina í lífinu, frekar en við öll hin.

Nú kveð ég þig elsku drengurinn minn.

Þó að enn þín sorgarsaga

sýnist fjarri að vera þögnuð

yfir þínu angri sé ég

upprisunnar mikla fögnuð.

(G.I.K.)

Þín amma,

Unnur Steingrímsdóttir.