Dóra Björk Leósdóttir fæddist á Ytra-Álandi í Þistilfirði 12. desember 1938. Hún lést 21. júní 2013.

Útför Dóru Bjarkar fór fram frá Þórshafnarkirkju 6. júlí 2013.

Ég var tveggja ára þegar mamma og pabbi fóru til útlanda og ég fór norður til Þórshafnar í pössun til ömmu og afa í fyrsta sinn.

Ég átti eftir að heimsækja þau oft eftir þetta. Það var alltaf sérstök tilfinning að koma á Austurveginn. Húsið var alltaf eins, lyktin var sú sama og andrúmsloftið notalegt.

Við fórum einu sinni saman norður ég og Danni bróðir minn og það er mín fyrsta minning um heimsókn til Þórshafnar. Nærvera ömmu og afa er mér svo minnisstæð og ég finn hvað það er gott að hugsa til baka. Útvarpið hans afa stendur á stofugólfinu, fréttirnar í gangi, afi er á inniskónum vappandi um húsið, og eldhúsið er alltaf fullt af kleinum eða pönnukökum. Afi gat hneykslast í hvert sinn sem amma bar á borð fyrir okkur eitthvert heimabakað góðgæti því hann sagði glenntur að maður ætti bara að borða „siginn fisk og lýsi“.

Ég fór líka ein og var þar eitt sumar hjá ömmu eftir að afi dó og var að vinna í fiski. Hún sagði mér aldrei þetta sumar að hún ætlaði að passa upp á mig eða að henni þætti vænt um mig, en ég fann það í öllu hennar atferli. Hún var alltaf vöknuð þegar ég átti að vakna, hún var alltaf búin að gera mat þegar ég kom heim og ég man ekki eftir því að hafa sett í eina þvottavél eða hugsað mikið um þess háttar hluti. Hún hugsaði vel um mig. Amma mín og afi áttu það sameiginlegt að hafa sérstakan máta til að sýna væntumþykju, ekki með orðum heldur gjörðum. Þennan eiginleika erfði pabbi minn, það eru litlu hlutirnir sem hann gerir sem sýna manni að honum þyki vænt um mann.

Einmitt vegna þessa sem er svo ólíkt í fari pabba og fólksins hans og mömmu og okkar barnanna þá voru ástarjátningar knúsar og koss mjög einhliða. Ég knúsaði ömmu mína og kyssti við hvert tækifæri, kallaði hana eina ömmukynsið mitt, og ég finn ennþá í dag lyktina af Danna afa þegar ég hugsa um að knúsa hann og stingandi skeggið hans. Amma hafði orð á því við mömmu oftar en einu sinni hvað við systkinin værum „blíð“. Daginn áður en amma kvaddi kyssti ég hana á ennið og sagði henni allt sem ég vildi sagt hafa, ég kvaddi hana með tárum, og það var ekkert skrýtið, heldur eðlilegt, að hún svaraði ekki, heldur brosti til mín og horfði á mig og ég veit hvað hún vildi sagt hafa.

Amma átti ekki alltaf auðvelt líf – en hennar síðustu dagar og vikur hjá okkur voru án efa eins og best verður á kosið á fallega heimilinu hennar Rósu þar sem var stjanað við hana eins og prinsessu allt fram á síðustu stundu.

Elsku Alla og Steina, ykkar missir er mikill. Ég vona að þið finnið að amma er komin á góðan stað, það verður ekki hægt að heimsækja hana eða hringja í hana, en ef við lokum augunum þá getum við séð hana skælbrosandi, freknótta og sæta, baðaða í sólskini umvafða litríkum blómum með öllum þeim sem fóru á undan henni, fremstur í flokki stendur afi Danni með krosslagðar hendur og bros.

Pabbinn minn, í þér lifir allt það góða sem fannst í bæði ömmu og afa og af því var amma afar stolt.

Ég kveð þig með söknuði, elsku amma mín.

Góða ferð.

Ásta Björk.