Ríkið á að vera til fyrir fólkið, ekki öfugt

Ef það er eitt sem umræðan um veiðileyfagjöldin hefur leitt í ljós, þá eru það öfugsnúnar hugmyndir stjórnarandstöðunnar um ríki og skatta. Sagt er að verið sé að veita mönnum gjafir með því að lækka lítt ígrundaðar álögur á þá. Grundvöllurinn í þessari hugsun er sá að allt sem menn afli sér tilheyri ríkinu en ekki þeim sjálfum og þeir megi því þakka fyrir það að ríkið gefi þeim peninginn til baka með því að innheimta hann ekki í skatt.

Verður með sömu rökum ráðist á skattalækkanir til almennings? Verður þá sagt að ríkið sé að gefa fólki milljarða með því einu að innheimta ekki skattpíninguna sem vinstri stjórnin síðasta kom á?

7. júlí síðastliðinn hélt Samband ungra sjálfstæðismanna upp á skattadaginn, daginn sem fólk hættir að vinna fyrir hið opinbera og fer að vinna fyrir sig sjálft. Þetta framtak er þakkarvert því að mælikvarðinn sýnir hver þróunin hefur verið þó að vissulega geti menn greint á um útfærslur eða reikniaðferðir.

Hvað sem því líður er skattadagurinn, og sú staðreynd að hann hefur þokast í ranga átt á síðustu árum, ágæt áminning um nauðsyn þess að gæta aðhalds í opinberum rekstri og draga saman seglin.

Vonandi tekst að ýta skattadeginum yfir á réttan árshelming og helst vel það, en óvíst er að allir samþykki það markmið. Miðað við umræðu stjórnarandstöðunnar um veiðileyfagjaldið ættu skattgreiðendur kannski bara að þakka fyrir þá „gjöf“ ríkisins að skattadagurinn sé ekki 31. desember á hverju ári.