Leit Landhelgisgæslan aðstoðaði við leitina og var þyrla hennar við Laugarvatn í gær.
Leit Landhelgisgæslan aðstoðaði við leitina og var þyrla hennar við Laugarvatn í gær.
Umfangsmikil leit var gerð að tveimur mönnum í Árnessýslu í gær í tengslum við lögreglurannsókn í Reykjavík, meðal annars vegna líkamsárásarmáls.

Umfangsmikil leit var gerð að tveimur mönnum í Árnessýslu í gær í tengslum við lögreglurannsókn í Reykjavík, meðal annars vegna líkamsárásarmáls. Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér seint í gærkvöldi kom fram að mannanna hafði verið leitað í nokkurn tíma en talið var að þeir héldu til í nágrenni Vaðness í Grímsnesi.

Í tilkynningunni segir að tveir menn hafi verið handteknir við Laugarvatn og að þeir gisti nú fangageymslur. Þeir verði yfirheyrðir í dag.

Fjöldi lögreglumanna leitaði mannanna í gær auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni. Að sögn sjónarvotta voru þrír lögreglubílar og sjúkrabíll, auk þyrlu Gæslunnar, við Laugarvatn í gær. Þar hafi lögreglumenn stöðvað bíla sem áttu leið þar um og leitað í þeim hátt og lágt.

Þá herma heimildir að bílar hafi verið stöðvaðir við Kerið þar sem mannanna var leitað um tíma.