Jón Guðnason, sóknarprestur og skjalavörður, fæddist á Óspaksstöðum í Hrútafirði 12.7. 1889.

Jón Guðnason, sóknarprestur og skjalavörður, fæddist á Óspaksstöðum í Hrútafirði 12.7. 1889. Foreldrar hans voru Guðni Einarsson, bóndi og verslunarmaður þar Einarssonar bónda á Valdasteinsstöðum í Hrútafirði Guðnasonar, og kona hans, Guðrún Jónsdóttir bónda í Hvítuhlíð í Broddaneshr., Strand., Jónssonar.

Kona Jóns var Guðlaug Bjartmarsdóttir, f. 17.2. 1889, d. 17.7. 1977. Foreldrar hennar voru Bjartmar Kristjánsson og kona hans, Ingibjörg Guðmundsdóttur.

Jón varð stúdent frá MR 1912 og tók guðfræðipróf frá HÍ 1915. Hann kenndi við Flensborgarskóla í Hafnarfirði febr.-apríl 1916. Var prestur í Staðarhólsprestakalli í Dalasýslu 1916-1918, á Kvennabrekku í Miðdölum 1918-1928 og á Prestsbakka í Hrútafirði 1928-1948. Hann var skólastjóri Héraðsskólans á Reykjum í Hrútafirði 1930-1932, kennari við hann 1934-1940 og 1944-1948, en skólinn var hernuminn 1940-1943. Varð svo kjalavörður í Þjóðskjalasafni 1948-1959. Jón var alþingismaður Framsóknarflokksins í Dalasýslu 1926-1927.

Jón var fróðleiksgjarn og langminnugur, og í öllum störfum hans koma þeir eiginleikar að góðu haldi. Hann lagði snemma hug á þjóðlegan fróðleik, mannfræði og ættfræði, og áhugi hans í þeim efnum var ríkur þáttur í þeirri ákvörðun hans að láta af prestskap og kennslustörfum og taka við starfi í Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Jafnframt mikilli skylduvinnu í þágu safnsins afkastaði hann í tómstundum sínum geysimiklu fræðistarfi. Frá hans hendi komu út safnrit með æviskrám margra merkra Íslendinga, bæði lífs og liðinna.

Eitt veigamesta rit Jóns var Strandamenn, æviskrár 1703-1953, Er ritið hátt á sjöunda hundrað síðna, myndum prýtt, og hefur einkum að geyma æviskrár bænda í Strandasýslu á nefndu tímabili, en einnig eru þar fjölmargar æviskrár Strandamanna utan héraðs, bæði hér á landi og Vesturheimi.

Jón Guðnason lést í Reykjavík 11.5. 1975.