Slátrun Uppsveifla hefur verið á Vestfjörðum vegna uppbyggingar laxeldis Fjarðalax. Fyrirtækið fær ekki að vaxa eins og stjórnendur þess vilja.
Slátrun Uppsveifla hefur verið á Vestfjörðum vegna uppbyggingar laxeldis Fjarðalax. Fyrirtækið fær ekki að vaxa eins og stjórnendur þess vilja. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Það kerfi leyfisveitinga sem nú er notað í sjókvíaeldi er ekki nothæft, að mati Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra, sem vill finna lausn svo að atvinnugreinin geti vaxið áfram.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Það kerfi leyfisveitinga sem nú er notað í sjókvíaeldi er ekki nothæft, að mati Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra, sem vill finna lausn svo að atvinnugreinin geti vaxið áfram. Hann skoðar að uppbyggingin fari í gegnum skipulagsferli til framtíðar en jafnframt mun hann skipa starfshóp til að koma með tillögur að breytingum á núverandi leyfisveitingakerfi svo það virki betur þar til nýtt fyrirkomulag kemst á.

Fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva fóru á fund Sigurðar Inga Jóhannssonar í atvinnuvegaráðuneytinu í gær. Guðbergur Rúnarsson framkvæmdastjóri segir að tilgangurinn hafi verið að gera ráðherra grein fyrir möguleikum fiskeldis og þeim vandamálum sem núverandi leyfisveitingaferli skapi fyrirtækjunum við uppbygginguna.

Tvö mál eru einkum í umræðunni í þessu sambandi. Það er krafa um umhverfismat fyrir uppbyggingu sjókvíaeldis Hraðfrystihússins – Gunnvarar í Ísafjarðardjúpi og stækkun stöðvar Fjarðalax í Fossfirði í Arnarfirði.

Vöxturinn stöðvast

Guðbergur segir að uppbyggingin hafi almennt gengið vel. Stöðvar séu komnar vel af stað í sjókvíaeldi og mikil aukning framundan. „Við erum að tala um að framleiðslan geti aukist um 30 þúsund tonn á næstu árum og það skapar útflutningsverðmæti upp á 26-27 milljarða á ári, þegar allt er komið í gang,“ segir Guðbergur.

Hann segir að leyfisveitingakerfið stöðvi þessa þróun. Það taki of langan tíma. Til dæmis ætli úrskurðarnefnd sér tvö ár til að kveða upp úrskurði um mál sem þangað er skotið. Uppbyggingin stöðvist í mörg ár.

Sigurður Ingi segir að sér hafi lengi verið það ljóst að verulegra úrbóta sé þörf á leyfisveitingakerfi laxeldis. „Þetta er flókið kerfi og tímafrekt. Menn sjá hvorki fyrir sér upphaf né endi þess tíma. Þá geta komið óvæntar flækjur. Þetta tefur fyrir vexti en það sem verst er að fyrirkomulagið tryggir ekki heildstætt mat þar sem horft er til allra þátta umhverfis og nýtingar.“

Sigurður fer jafnframt með umhverfismálin og hann hefur þegar falið umhverfisráðuneytinu og Skipulagsstofnun að kortleggja stöðuna og skoða fyrirkomulagið til framtíðar. Sjálfur nefnir hann þann möguleika að fara með laxeldið í skipulagsferli þar sem fyrirfram verði skipulagt hvernig nýta eigi viðkomandi strandlengju eða fjörð. Slík vinna sem nefnd er strandnýtingaráætlun hefur verið unnin í Arnarfirði en hefur ekki lögformlegt gildi.

Það mun taka tíma að búa til nýtt kerfi og koma því í framkvæmd. Sigurður Ingi tók vel í tillögu Landssambands fiskeldisstöðva um að skipa starfshóp til að leysa úr þeim málum sem standa þeim fyrir þrifum í núverandi kerfi. Guðbergur segir mikilvægt að hópurinn skili niðurstöðum í haust. „Við erum búnir að missa af árinu 2014 en ef við ætlum að ná árinu 2015 þarf að skipuleggja hrognatöku í haust,“ segir Guðbergur.

Hann telur óþarfi að fara í umhverfismat þegar óskað er eftir stækkun sjókvíaeldis í 7 þúsund tonn eins og í Ísafjarðardjúpi eða 10 þúsund tonn hjá tveimur fyrirtækjum í Arnarfirði. Nefnir hann sem dæmi að norskir sérfræðingar á þessu sviði telji að Arnarfjörður beri 20 þúsund tonna framleiðslu. „Hvernig getur þá 10 þúsund tonna eldi verið skaðlegt, með þeim fyrirvörum sem við höfum verið að gera,“ segir Guðbergur og nefnir að hægt sé að fylgjast með laxeldinu eftir að það er hafið og áhrif þess á umhverfið og grípa til nauðsynlegra ráðstafana.