Goslokahátíð Barbara Irving og Luis E. Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna, við setningu goslokahátíðarinnar í Vestmannaeyjum 4. júlí 2013.
Goslokahátíð Barbara Irving og Luis E. Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna, við setningu goslokahátíðarinnar í Vestmannaeyjum 4. júlí 2013. — Ljósmynd/Paul M. Cunningham
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Bréf frá Frederick Irving, sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á árunum 1972-1976, var lesið við setningu goslokahátíðarinnar í Vestmannaeyjum hinn 4. júlí síðastliðinn.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Bréf frá Frederick Irving, sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á árunum 1972-1976, var lesið við setningu goslokahátíðarinnar í Vestmannaeyjum hinn 4. júlí síðastliðinn. Þar var þess minnst að 40 ár voru liðin frá lokum Heimaeyjargossins árið 1973.

Barbara Irving, dóttir sendiherrahjónanna Dorothy og Frederick Irving, las bréfið frá föður sínum. Hann bý nú í Bandaríkjunum. Með Barböru í för voru níu manns úr fjölskyldu hennar. Hópurinn kom til Vestmannaeyja í tilefni goslokahátíðarinnar.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, bauð Irving-fjölskylduna sérstaklega velkomna við setningarathöfnina. Hann sagði vel þekkt hve mikinn þátt Irving sendiherra hefði átt í þeim mikla stuðningi sem Bandaríkjamenn veittu Íslendingum í eldgosinu.

Elliði sagði í samtali við Morgunblaðið að í bréfinu sem Barbara las hefði Frederick Irving þakkað Vestmannaeyingum og Íslendingum fyrir samveruna og samskiptin á árum áður. Einnig hefði hann rifjað upp árin hér og minnisverða viðburði.

Elliði sagði að það hefði verið mikið happ fyrir íslensku þjóðina að fá hingað slíkan þungavigtarmann í bandarískum utanríkismálum, sem Frederick Irving var, í stöðu sendiherra á Íslandi.

„Koma hans hingað var til marks um mikilvægi Íslands í heimsmálunum á þessum árum. Það var okkur mikið happ í gosinu að hafa hér mann sem hafði jafn mikið umboð og áhrif og Irving hafði. Hann hafði mjög sterk tengsl við æðstu valdamenn í bandaríska stjórnkerfinu og ríkt umboð til ákvarðanatöku,“ sagði Elliði.

Hann nefndi sérstaklega þátt Irvings sendiherra í að fá dælubúnaðinn sem Bandaríkjamenn lánuðu og fluttu hingað með skömmum fyrirvara. Dælurnar skiptu sköpum fyrir hraunkælinguna í Heimaeyjargosinu. Einnig áttu flugvélar varnarliðsins stóran þátt í að flytja aldraða og sjúka frá Vestmannaeyjum nóttina þegar gosið braust út. Fjöldi bandarískra hermanna af Keflavíkurflugvelli kom einnig til Vestmannaeyja og vann við að moka ösku af húsþökum og bjarga eignum á meðan eldgosið stóð sem hæst.