Eldsneyti Hægt er að spara þúsundir á því að deila bensínkostnaði.
Eldsneyti Hægt er að spara þúsundir á því að deila bensínkostnaði. — Morgunblaðið/Ómar
Með vaxandi eldsneytiskostnaði leitar fólk sífellt leiða til að spara ferðakostnað. Fyrr í sumar var vefsíðan pantafar.

Með vaxandi eldsneytiskostnaði leitar fólk sífellt leiða til að spara ferðakostnað. Fyrr í sumar var vefsíðan pantafar.is opnuð, en hún er byggð á þeirri hugmynd að einstaklingar geti auglýst eftir fari eða farþegum áður en haldið er í ferðalög milli landshluta. Með því deilir fólk eldsneytiskostnaði og stuðlar um leið að minni útblæstri mengandi efna.

Hinn tvítugi Erwin Szudrawsk stendur á bak við vefsíðuna sem í raun byggist á annarri íslenskri vefsíðu, samferda.is. Erwin, sem sjálfur hefur notað samferda.is, segir muninn á síðunum þann að öll samskipti ferðlanga fari fram á netinu á pantafar.is. Erwin tekur fram að þjónustan sé gjaldfrjáls, vefsíðan skili engum tekjum heldur sé hún einungis sett upp af áhuga.

Allt að 50-70 ferðir á dag

Vefurinn samferda.is hefur verið starfræktur frá árinu 2005 af Birgi Þór Halldórssyni sem segir að notendum hafi fjölgað hratt fyrstu árin, en síðustu ár hafi hægst á fjölguninni þó hún sé stöðug. Birgir heldur ekki nákvæmlega utan um fjölda notenda á síðunni. Hinsvegar séu dæmi um að allt að 50-70 ferðir séu farnar á dag þar sem fólk tengist í gegnum síðuna. Þjónusta samferda.is er sömuleiðis ókeypis. heimirs@mbl.is

Gjaldfrjáls þjónusta
» Ferðalangar geta nýtt sér þjónustu samferda.is og pantafar.is sér að kostnaðarlausu.
» Engar reglur eru settar fram um deilingu eldsneytiskostnaðar heldur koma ferðafélagar sér saman um skiptinguna
» Dæmi eru um að 50-70 ferðir séu skipulagðar á dag á samferda.is