Herjólfsdalur Fjöldi sjálfboðaliða undirbýr Þjóðhátíðina. Þessir kappar hafa unnið við hátíðina áratugum saman.
Herjólfsdalur Fjöldi sjálfboðaliða undirbýr Þjóðhátíðina. Þessir kappar hafa unnið við hátíðina áratugum saman. — Eyjafréttir/Júlíus G. Ingason
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Undirbúningur Þjóðhátíðar Vestmannaeyja stendur nú sem hæst. Milli 100 og 200 sjálfboðaliðar leggja hönd á plóginn við undirbúninginn, að sögn Dóru Bjarkar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ÍBV íþróttafélags.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Undirbúningur Þjóðhátíðar Vestmannaeyja stendur nú sem hæst. Milli 100 og 200 sjálfboðaliðar leggja hönd á plóginn við undirbúninginn, að sögn Dóru Bjarkar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ÍBV íþróttafélags. Hún situr einnig í þjóðhátíðarnefnd.

Menn voru mættir í Herjólfsdal í gærkvöldi til að smíða og setja upp skreytingar. Þar hafa sjálfboðaliðar unnið frá því um aðra helgina í júlí, þegar goslokahátíðin var að baki. Þannig tekur ein hátíðin við af annarri á dagatali Vestmannaeyinga.

„Undirbúningurinn gengur mjög vel,“ sagði Dóra Björk. „Hofið er komið upp og veitingatjaldið, litli danspallurinn, myllan, eiginlega allt nema vitinn.“ Fyrir nokkru var byggt nýtt varanlegt aðalsvið í Herjólfsdal. Dóra Björk sagði það breyta miklu við undirbúning hátíðarinnar. Byggingin hýsir einnig salerni fyrir fatlaða og starfsfólk, auk almenningssalerna.

„Fyrstu veðurspár eru mjög góðar, bara brakandi blíða,“ sagði Dóra Björk. Hún sagði að miðasala hefði gengið mjög vel. Samkvæmt venju mega eigendur hústjalda reisa tjaldsúlur á fimmtudeginum fyrir Þjóðhátíð og tjalda föstudaginn 2. ágúst.

„Þjóðhátíðin er mjög mikilvæg fjáröflun fyrir íþróttafélagið ÍBV,“ sagði Dóra Björk. Hún sagði að fastir póstar verði á sínum stað á hátíðinni, flugeldasýningin, brennan og blysin og margir aðrir hefðbundnir liðir. Fjölbreytt dagskrá er fyrir börnin alla dagana enda er hátíðin fjölskylduhátíð. Meðal annars verður söngvakeppni barnanna. Allir skemmtikraftar verða innlendir. Meðal tónlistarfólks sem stígur á svið eru hljómsveitirnar Gus Gus, Stuðmenn, Retro Stefson, Sálin hans Jóns míns, Ingó og veðurguðirnir og Dans á rósum. Þá munu söngvararnir Bjartmar Guðlaugsson, Eyþór Ingi, Páll Óskar, Jónas Sigurðsson og Ásgeir Trausti einnig koma fram auk fleiri.

Nánar má lesa um dagskrá Þjóðhátíðar 2013 á heimasíðunni dalurinn.is. Þar er einnig mikill fróðleikur um hátíðina, þjóðhátíðarlögin og fleira.