Þrekraun Áhöfnin á Auði djúpúðgu rær allt að 12 tíma á sólarhring. Ræðararnir eru nú komnir til Færeyja á leið sinni til Íslands frá Noregi.
Þrekraun Áhöfnin á Auði djúpúðgu rær allt að 12 tíma á sólarhring. Ræðararnir eru nú komnir til Færeyja á leið sinni til Íslands frá Noregi. — Ljósmynd/Ingrid Kuhlman
Áhöfnin á úthafsróðrarbátnum Auði djúpúðgu kom til hafnar í bænum Porkeri í Færeyjum í gærkvöldi á leið sinni frá Noregi til Íslands. Skipverjarnir hafa lent í ýmsum hremmingum, en í fyrrinótt tók stór alda stýrið af bátnum.

Áhöfnin á úthafsróðrarbátnum Auði djúpúðgu kom til hafnar í bænum Porkeri í Færeyjum í gærkvöldi á leið sinni frá Noregi til Íslands. Skipverjarnir hafa lent í ýmsum hremmingum, en í fyrrinótt tók stór alda stýrið af bátnum. Brugðu þeir þá á það ráð að breyta fellikili bátsins í stýri, en án fellikjalarins er báturinn valtari en ella. Fjölmiðlafulltrúi leiðangursins, Ingrid Kuhlman, segir félagana hafa staðið sig eins og hetjur. „Ég hef ekki heyrt neinn kvarta undan neinu þrátt fyrir að vera að róa í 12 tíma á sólarhring. Eftir að stýrið fór af hafa þeir verið í vandræðum með að hita sér vatn, til þess að borða þurrmatinn, vegna veltingsins.“ Næring skipverjanna er mikilvæg, en þeir þurfa að innbyrða um 8.000 kaloríur á dag. Á sjö daga ferð sinni frá Noregi til Orkneyja misstu skipverjarnir frá tveimur og alveg upp í átta kíló. „Við grínuðumst svolítið með það, að það væri kannski hægt að fara af stað með hugmyndina North Sea Diet,“ segir Ingrid.

Flottar móttökur í Færeyjum

Óvíst er hversu lengi áhöfnin þarf að dvelja í Færeyjum en það ræðst bæði af veðri og því hversu langan tíma það tekur að smíða nýtt stýri. Áhöfnin mun þó hafa nóg fyrir stafni á meðan á dvölinni stendur, en nánast allir íbúar Porkeri tóku á móti þeim félögum á bryggjunni, þar var þeim haldin veisla og munu þeir halda þar fyrirlestra um ferðalag sitt. Á morgun róa þeir síðan til Þórshafnar en það er ein dagsleið. Þar munu þeir einnig kynna för sína og svo bíða þeir eftir að veður verði nógu gott til þess að hægt sé að leggja af stað til Íslands. Þeir stefna að því að koma í land á Suðausturlandi. „Golfstraumurinn skiptist samt í tvennt á leiðinni. Ef þeir eru heppnir lenda þeir einhvers staðar nálægt Höfn en ef þeir eru óheppnir verða þeir að róa lengra og lenda í grennd við Vestmannaeyjar,“ segir Ingrid. bmo@mbl.is