Dýralæknir Hanna María segir það talsvert algengara að fólk komi með ketti en hunda til svæfingar.
Dýralæknir Hanna María segir það talsvert algengara að fólk komi með ketti en hunda til svæfingar. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir hafa eflaust velt því fyrir sér hvort dýraspítalar bjóði upp á heimasvæfingar gæludýra, enda er dýrunum oft illa við ferðir á spítalann. Dýralæknirinn Hanna María Arnórsdóttir segir svo vera, en eigendur þurfi þó að hafa ýmislegt hugfast.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Dýraspítalar hafa boðið upp á heimavitjanir í einhvern tíma og þá sérstaklega þegar um gömul eða veikburða dýr er að ræða. Þá vill fólk oft eyða þessari stund í einrúmi og ekki þurfa að hitta aðra á biðstofunni. Ef dýrið á í erfiðleikum með að fara á spítalann af einhverjum ástæðum þá ráðleggjum við eigendum að ræða við sinn dýralækni, alveg eins og rætt er um aðrar meðferðir, svo vel sé að öllu staðið. Það er um að gera að gera allt til þess að bæði dýrum og eigendum líði sem best við þessar erfiðu aðstæður. Stundum er hægt að koma því fyrir að þetta eigi sér stað á spítalanum rétt eftir lokun þegar allir eru farnir. Í flestum tilfellum reynum við að finna tíma þar sem lítið er um að vera og ef fólk vill frekar kveðja dýrin sín heimavið, þá reynum við að mæta þeim óskum,“ segir Hanna María Arnórsdóttir, dýralæknir hjá Dýraspítalanum í Garðabæ. Hún vill þó taka það fram að þegar að lógun er staðið á dýraspítala, þá þarf það ekki endilega að vera óþægilegri reynsla en ef slíkt er gert í heimahúsi.

Dýrin skynja sorg eigandans

„Það getur verið erfitt að sinna þjónustunni þegar beiðnin hefur borist samdægurs eða fólk krefst þess að gengið verði í verkið strax. Við erum með sjúklinga bókaða á dýralæknana og ef það á að ganga í verkið sama dag og beiðnin berst þá þyrfti að afbóka svo marga. Dýralæknarnir eru því kannski að gera þetta eftir sinn vinnutíma eða á vinnutíma ef pantað er í tæka tíð. Ég er til dæmis með tvær beiðnir nú í vikunni sem ég er að fara í. Það er dýrara að fá heimavitjun því það kemur ákveðið heimavitjunargjald ofan á verðið. Sumir vilja bara koma með dýrin til okkar þar sem við sjáum um allt. Í flestum heimavitjunum tökum við síðan hræið með okkur til baka. En það er allur gangur á þessu. Þessi ár sem ég hef verið að vinna við þetta þá eru um það bil tíu til fimmtán prósent dýra sem kveðja í heimahúsum. Þá er oftast um hunda að ræða,“ segir Hanna.

„Þetta gengur þá þannig fyrir sig að dýralæknirinn og eigandinn ákveða tíma sem hentar til verksins og oft vill fólk safna saman fjölskyldu eða jafnvel vera í einrúmi, fólk hagar þessari kveðjustund mjög misjafnlega. Svo gengur þetta fyrir sig alveg eins og það myndi gera á spítalanum fyrir utan það að eigandinn þarf að halda við dýrið og styðja við það á meðan settur er upp æðaleggur og það sprautað. Á spítalanum er það hjúkkan sem gegnir því hlutverki. Dýrin eru oft miklu rólegri heima hjá sér og eru ekki kvíðin, þau eru bara í sínu venjulega umhverfi og eru því afslöppuð. Samt finna þau á sér, þá sérstaklega hundarnir, að eitthvað er að vegna þess að allir eru svo hnípnir og sorgmæddir og verða því gjarnan áhyggjufull vegna þess en ekki vegna sjálfs sín,“ segir hún.

Gömul dýr læra af reynslunni

„Það eru eingöngu hunda- og kattaeigendur sem fá þessa þjónustu. Það er svolítið algengt að dýrin stressist upp þegar þau nálgast dýraspítalann. Sumum er alveg sama en ef þau upplifa bara það sem er óþægilegt við dýraspítalaheimsóknir þá lærir dýrið að tengja saman spítalann og óþægindin. Þess vegna hvetjum við oft fólk, þá sérstaklega með yngri hunda, að koma við í heimsókn og fá smá nammi og fara út aftur. Þá gætu þeir lært að það sé ekki alltaf eitthvað slæmt sem fylgir þessum heimsóknum. En gamall hundur lærir af reynslunni og þegar þeir eldast þá verða þeir óöruggari. Dýrin finna til öryggis nálægt sínu fólki en um leið og þau eru tekin inn í umhverfi þar sem er lykt af öðrum dýrum, jafnvel lykt af dýrum sem hafa orðið hrædd og hafa því gefið frá sér ákveðin lyktarefni, þá segir óöryggið svolítið til sín. Við finnum til dæmis mikinn mun á dýrum sem koma snemma morguns og þeim sem koma seinni part dags. Þá er erillinn kannski búinn að vera mikill og hundarnir finna lykt í hverju horni. Þeir skynja náttúrulega umhverfi sitt fyrst og fremst í gegnum lykt og heyrn og síðan sjón á meðan því er öfugt farið hjá okkur,“ segir Hanna en hún segir ekki marga hunda koma í svæfingu í hverri viku. Hún segir þó að því miður sé það talsvert algengara að fólk komi með ketti í slíkar vitjanir en þetta sé þó oft háð tilviljunum og að tala lógaðra dýra sveiflist svolítið.

„Við erum með sérstakt herbergi hér á spítalanum fyrir þá sem ákveða að láta gera þetta hér. Þar getur fólk og gæludýr þeirra verið í næði þegar þetta fer allt saman fram. Fólk fær þar allan þann tíma sem það þarf til að kveðja því þetta er að sjálfsögðu erfitt. Viðkomandi er búinn að eiga vin í langan tíma og þetta tekur að sjálfsögðu á. Allri gleði fylgir vissulega sorg en þarna ertu að taka ákvörðun fyrir góðan vin. En það er líka viss líkn í mörgum tilfellum, og þá yfirleitt þegar um eldri hunda er að ræða. Það er samt alltaf erfitt að taka þessa ákvörðun,“ segir Hanna.

Ekki má urða hvar sem er

„Það getur stundum verið erfitt að komast í æð hjá mjög veikum dýrum. Ef um heimavitjun er að ræða þá er eigandinn ef til vill ekki í sálarástandi til að aðstoða og þá situr dýralæknirinn einn í því. Þetta fer samt yfirleitt alltaf vel, ég man ekki eftir mörgum atvikum þar sem þetta hefur gengið eitthvað brösuglega. Við viljum gjarnan bjóða upp á þessa þjónustu áfram og ég held að allir dýralæknar séu sammála um það,“ segir Hanna.

„Eigandinn getur ekki gert hvað sem er við hræið að lokinni svæfingu því að í lögum stendur að ekki megi urða hræ nema á ákveðnum stöðum. Margir eiga þó sumarbústaðalönd eða þess háttar þar sem dýrin eru gjarnan jörðuð. Síðan er dýrakirkjugarður í Kjós og svo er boðið upp á sérbrennslu ef fólk kýs að fá öskuna til baka. Annars fer hræið í almenna brennslu. Því er þannig hagað hjá okkur að við höfum fengið leyfi hjá Heilbrigðiseftirlitinu í Garðabæ að dreifa ösku þeirra dýra sem fara í almenna brennslu í ákveðin kyrrðarlund sem við fengum úthlutað sem er á ákveðnu skógræktarsvæði. Askan gegnir því bara hlutverki áburðar. Það er því engu hent eins og var hérna áður, þá var farið með hræin upp í Sorpu og þau urðuð þar,“ segir hún.

Góð kveðjustund

Hanna kveðst aldrei hafa orðið vitni að því að eigendur verði svo bugaðir að þeir taki dýrin aftur heim áður en svæfingin á sér stað. Hún segir flesta þó afar sorgmædda.

„Fólk er náttúrlega bara hrætt um að þetta fari illa fram, hrætt um að dýrið kenni mikið til og hrætt um að þetta verði eitthvað ljótt, en það eru óþarfa áhyggjur. Við höfum þá reglu að við gefum alltaf róandi áður og gjarnan verkjalyf ef dýrin eru mjög kvalin. Þá er voða gott að sjá hvernig það líður úr þeim og þá myndast smá tómarúm fyrir eigendur til að spjalla um fyrri stundir og þess háttar. Fólk fær tíma til að sætta sig við orðinn hlut og sér að dýrinu líður vel. Svo fær það sprautu beint í æð, við setjum alltaf upp legg svo það fari ekkert út fyrir, þau missa meðvitund á fyrstu dropunum og fara svo í hjartastopp í svefni. Það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér betri dauðdaga, það er að segja ef ekkert er framundan annað en kvalir og pína,“ segir Hanna að lokum.