Skemmdir Brennd bílflök nærri Háskólanum í Kaíró eftir átökin þar.
Skemmdir Brennd bílflök nærri Háskólanum í Kaíró eftir átökin þar. — AFP
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Setumótmæli stuðningsmanna Mohammeds Morsi nærri Háskólanum í Kaíró leystust upp í blóðbaði eftir að andstæðingar forsetans fyrrverandi réðust á þá. Að minnsta kosti tíu manns liggja í valnum eftir átökin.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Setumótmæli stuðningsmanna Mohammeds Morsi nærri Háskólanum í Kaíró leystust upp í blóðbaði eftir að andstæðingar forsetans fyrrverandi réðust á þá. Að minnsta kosti tíu manns liggja í valnum eftir átökin. Þrýstingur á stjórnvöld um að leysa Morsi úr haldi eykst nú dag frá degi.

Til átaka kom á milli fylkinganna strax á mánudag og héldu þau áfram í gegnum nóttina og fram á þriðjudagsmorgun. Auk þeirra sem féllu slösuðust tugir manna. Stuðningsmenn Morsi halda því fram að leyniskyttur hafi skotið á þá og notið til þess verndar öryggissveita stjórnvalda að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

Ætla að mótmæla áfram

Þrír menn til viðbótar féllu í götubardögum í bænum Qalyub, norður af höfuðborginni, í gær. Þar á meðal varð einn maður undir lest þegar hann reyndi að forða sér undan ofbeldinu sem geisaði.

Bræðralag múslíma, flokkur Morsi, hefur heitið því að halda mótmælum áfram þar til Morsi hefur verið settur aftur í embætti forseta. Það neitar að viðurkenna bráðabrigðastjórnina sem herinn kom á í kjölfar þess að Morsi var steypt af stóli í byrjun mánaðar.

Við það bætist að fulltrúar Bandaríkjanna, Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins hafa hvatt stjórnina til að sleppa forsetanum fyrrverandi úr haldi. Honum hefur verið haldið föngnum á óþekktum stað án þess að vera ákærður frá því honum var komið frá völdum.