Fögnuður Björn Daníel Sverrisson bendir til Guðmanns Þórissonar eftir að hafa skorað mikilvægt mark gegn Ekranas í Kaplakrikanum í kjölfar skallasendingar Guðmanns. Jón Ragnar Jónsson og Pétur Viðarsson fagna Birni af innlifun og fyrirliðinn Ólafur Páll Snorrason klappar Guðmanni á kollinn.
Fögnuður Björn Daníel Sverrisson bendir til Guðmanns Þórissonar eftir að hafa skorað mikilvægt mark gegn Ekranas í Kaplakrikanum í kjölfar skallasendingar Guðmanns. Jón Ragnar Jónsson og Pétur Viðarsson fagna Birni af innlifun og fyrirliðinn Ólafur Páll Snorrason klappar Guðmanni á kollinn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Fyrst og fremst er þetta mikil viðurkenning fyrir liðið; strákana, þjálfarana og okkur sem störfum fyrir félagið. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Fyrst og fremst er þetta mikil viðurkenning fyrir liðið; strákana, þjálfarana og okkur sem störfum fyrir félagið. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur. Þetta gefur okkur fleiri UEFA-stig svo við verðum hærra skrifaðir í framtíðinni, og eigum því betri möguleika. Fjárhagslega er þetta svo líka mjög jákvætt,“ sagði Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, þegar Morgunblaðið ræddi við hann eftir sigurinn frækna á Ekranas frá Litháen í gær.

Sigurinn kom FH í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu og tryggði liðinu að minnsta kosti tvö Evrópueinvígi til viðbótar, því tapi liðið gegn Austria Vín í 3. umferðinni þá fer FH í umspil um sæti í riðlakeppni hinnar Evrópukeppninnar; Evrópudeildarinnar. FH græðir vel á þessari niðurstöðu.

„Það var gerð smábreyting á verðlaunafénu og núna fáum við 200.000 evrur [32 milljónir króna] fyrir að komast í þessa þriðju umferð. Lánist okkur ekki að vinna Austria Vín þá förum við í umspilið í Evrópudeildinni og fáum þar 150.000 evrur [24 milljónir]. Vonandi yrði ferðalagið gegn andstæðingnum þar ekki dýrt, en ferðalagið til Vínar er auðvitað frekar þægilegt. Ef við höfum hins vegar betur gegn Vín þá opnast fjárhagslegar flóðgáttir,“ sagði Jón Rúnar léttur í bragði.

Geggjað fyrir strákana

„Þetta gerir svakalega mikið fyrir félagið. Núna þurfum við bara að sjá til hvernig við spilum úr því, og vonandi gerum við það bara af einhverri skynsemi. En fyrst og fremst er þetta bara geggjað fyrir strákana, liðið allt og fyrir íslenskan fótbolta,“ sagði Jón Rúnar.