Eskifjörður Sævar Guðjónsson með bjarghring af flutningaskipinu Synetu, sem fórst við Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar á jóladagskvöld 1986. Fyrir miðju er hringur af Gesinu og sá sem af Goðanum er lengst til vinstri.
Eskifjörður Sævar Guðjónsson með bjarghring af flutningaskipinu Synetu, sem fórst við Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar á jóladagskvöld 1986. Fyrir miðju er hringur af Gesinu og sá sem af Goðanum er lengst til vinstri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Bjarghringirnir vekja athygli Íslendinganna sem hingað koma enda þekkja þeir gjarnan til sögunnar sem að baki býr.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Bjarghringirnir vekja athygli Íslendinganna sem hingað koma enda þekkja þeir gjarnan til sögunnar sem að baki býr. Hringina af skipunum þremur rak á fjörur í orðsins fyllstu merkingu og eftir því sem stundir hafa liðið fram hefur fólki orðið ljóst að þetta eru ákveðin minnismerki,“ segir Sævar Guðjónsson á Eskifirði.

Saman standa Sævar og Berglind Steina Ingvarsdóttir, eiginkona hans, að rekstri ferðaþjónustu á Mjóeyri, sem er yst í Eskifjarðarbæ. Fyrir nokkrum árum tóku þau við umsjón Randulffssjóhúss, sem byggt var árið 1890. Það var upphaflega verbúð, en þar er nú veitingastaður og vísir að minjasafni.

„Með skaddað stýri og laskaða vél“

Í september 1966 strandaði norski síldarbáturinn Gesina í Sandvík við Gerpi, utan við Eskifjörð. Mannbjörg varð. Bjarghringur af skipinu fór á flot og var gripinn upp í flæðarmálinu. Seinna var hann falinn Sjóminjasafni Austurlands til varðveislu og eins hringur af breska flutningaskipinu Synetu. Það fórst við eyna Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar á jóladagskvöld 1986 og með því tólf manns, sex Bretar og aðrir sex frá Grænhöfðaeyjum.

Talsvert var fjallað um Synetu-slysið á sínum tíma. Má þar nefna að Bubbi Morthens samdi og söng um skipið „... sem skreið við landið, með skaddað stýri og laskaða vél “. Var það, með öðru, einmitt talin orsök slyssins.

Erfiðasti dagur lífsins

Þriðji bjarghringurinn í Rand-ulffssjóhúsi er af björgunarskipinu Goðanum sem fórst 10. janúar 1994. Skipið var inni á Vöðlavík, þegar brotsjór gekk yfir, en áhöfnin var komin austur til að freista þess að draga út Bergvík VE sem þar hafði strandað. Einn skipverja af Goðanum fórst, en sex var bjargað af þyrlusveit varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Austur flugu varnarliðsmenn í aftakaveðri og þóttu hafa unnið frækilegt afrek.

„Við sýnum sjómönnunum sem fórust virðingu með þessu,“ segir Sævar Guðjónsson sem var á vettvangi og stjórnaði aðgerðum björgunarsveitar þegar Goðinn fórst í Vöðlavík. „Við gátum ekkert gert, biðum í fjörunni, sáum mennina standa á þaki skipsins og bíða upp á von og óvon eftir þyrlunni sem að lokum kom. Þessi atburður situr alltaf í mér og ég hef stundum sagt að 10. janúar 1994 sé erfiðasti dagur lífs míns. Hins vegar er mikilvægt að vinna úr reynslunni. Það geri ég meðal annars með því að sýna bjarghringina sem eru táknmyndir á sinn hátt.“

SEX VAR BJARGAÐ FYRIR NÍTJÁN ÁRUM

Varnarliðsafrek í Vöðlavík

Björgun skipverja af Goðanum þótti einstakt afrek. Þyrla frá Gæslunni lagði af stað austur en var snúið við vegna veðurs. Tvær varnarliðsþyrlur náðu alla leið. Af sjö mönnum í áhöfn var sex bjargað. Flogið var með fjóra upp í fjöruna en tveir voru fluttir á sjúkrahús í Neskaupstað. Þótti mörgum það nánast gráglettni örlaganna að varnarliðsþyrlur kæmu þangað með hina hröktu, en bærinn var lengi höfuðvígi Alþýðubandalagsins og oft var talað um Litlu-Moskvu.