Gunnlaugur Jónsson fæddist á Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum 30. júlí 1924. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 13. júlí 2013.

Foreldrar hans voru Jón Þórólfur Jónsson, f. 25. júní 1870 í Lækjarkoti, Þverárhlíðarhreppi, d. 9. mars 1959 og Jófríður Ásmundsdóttir, f. 29. apríl 1881 á Höfða, Þverárhlíðarhreppi, d. 16. okt. 1977. Hann var næstyngstur af 16 systkinum. Elstur var Friðjón, f. 6. maí 1903, Ásbjörg Guðný, f. 30. nóv. 1904, Oddur Halldór, f. 17. jan. 1906, Guðmundur, f. 1. jan. 1908, Kristinn, f. 30. maí 1909, Lára, f. 21. ágúst 1911, Leifur, f. 31. okt. 1912, Guðjón, f. 13. des. 1913, Sigrún, f. 10. sept. 1915, Fanney, f. 1. okt. 1916, Guðmundur Óskar, f. 25. jan. 1918, Magnús, f. 29. júlí 1919, Ágústa, f. 8. ágúst 1922, þau eru öll látin en eftir lifa Svava, f. 31. jan. 1921 og Svanlaug, f. 15. jan. 1928.

Gunnlaugur giftist Jóhönnu Aðalsteinsdóttur 30. júlí 1954. Foreldrar hennar voru Aðalsteinn Óskar Guðmundsson og Sigrún Einarsdóttir. Barn Jóhönnu og stjúpdóttir Gunnlaugs er Ásta Sigríður Skaftadóttir, f. 28. maí 1950. Maki hennar er Karl Jónsson. Börn þeirra eru: 1) Harpa Sif, f. 1971, maki Aðalsteinn Jóhannsson. Þau eiga börnin Jóhann Karl, Gunnar Árna, Önnu Maríu. 2) Erna, f. 1975, maki Roland Kavalerik. Þau eiga börnin Daneyju og Silju. 3) Ævar, f. 1975 , barnsmóðir hans er Hrafnhildur Harðardóttir og eiga þau Kolbrúnu Ástu og Jóhönnu Erlu.

Gunnlaugur og Jóhanna kynntust í Borgarfirðinum, en þau bjuggu á ýmsum stöðum í Reykjavík. Hann var einstaklega barngóður og tók Ástu strax eins og hún væri hans eigin dóttir. Gunnlaugur og Jóhanna skildu 1972. Jóhanna lést 11. júní 1984. Gunnlaugur bjó með Ingveldi Hannesdóttir frá Brekkukoti um nokkurra ára skeið, hún er látin. Hann kynntist Ragnheiði Þorsteinsdóttir frá Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu kringum 1985 og bjuggu þau saman til ársins 2008. Ragnheiður lést 14. janúar 2013. Hann ólst upp á Gunnlaugsstöðum til 14 ára aldurs, þá fer hann að Hjarðarholti í Stafholtstungum og er þar í tvö ár. Næstu árin á eftir er hann við almenn sveitastörf á ýmsum bæjum í Þverárhlíð og Stafholtstungum. Hann var um nokkurt skeið hjá Sigrúnu systur sinni í Brautarholti en fór til Reykjavíkur 1952. Hann vann ýmsa verkamannavinnu, m.a. hjá Byggingafélaginu BSAB. Hann var nokkur ár í Grensáskjöri og vann einnig við garðyrkju. Síðast starfaði hann hjá Sól hf. eða í 13 ár. Síðustu árin vandi hann komur sínar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á rafskutlunni sinni og tíndi þar rusl eftir gesti og gangandi.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Áskirkju í dag, 24. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Í dag kveðjum við elskulegan frænda og góðan vin sem reyndist þeim vel sem til hans leituðu. Árið 2008 hófust kynni okkar fyrir alvöru og vorum við í daglegu sambandi við hann upp frá því. Við viljum þakka Gunnlaugi fyrir þann tíma sem við fengum með honum. Við fylgdum honum í gegnum góða og erfiða tíma. Blessuð sé minning hans.

Kristófer Kristófersson og Sigrún Kjærnested.

Ekki óraði mig fyrir því að símtalið á dögunum við hann Gulla okkar væri hið síðasta, því eins og vanalega lét hann vel af sér, hann var enda óvílinn maður. Gulli okkar sagði ég um hann Gunnlaug Jónsson, sem nú er kært kvaddur af svo mörgum er hann átti samskipti við. Mér er einkar ljúft að minnast hans og færa fram þakkir fyrir samstarfið við söngvökuna hjá eldri borgurum. Þar sá hann um árabil um sölu aðgöngumiða og eins á síðdegisdansinum. Þaðan eiga margir góðar minningar um þennan glaðbeitta en jafnframt ákveðna mann sem tók eins á móti öllum með bros á vör. Hans einkenni var að vilja hafa allt kórrétt, samvizkusemin honum í blóð borin. Þannig var hann í öllum sínum störfum og margir muna einnig eftir honum á skutlunni sinni og vinnunni sinni í Grasagarðinum sinnti hann af eðlislægri trúmennsku sem rómuð var. Ég kynntist Gunnlaugi fyrst við upptökur á þættinum Spurt og spjallað sem teknir voru upp af útvarpinu í félagsmiðstöðvum eldri borgara í Reykjavík og reyndar mun víðar einnig. Þarna var þessi broshýri og kurteisi maður mættur með upptökutæki sitt og bað leyfis að taka þættina upp sem var af allra hálfu auðsótt mál. Seinna gaf hann mér upptökur sem eru ljómandi fróðlegar og einkar skemmtilegar til upprifjunar. Og svo lágu leiðir okkar Gulla saman aftur hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík, en hjá því og fyrir það átti hann ófáar stundir, skilaði þar í sjálfboðavinnu drjúgum vinnuskerf í fleiri ár eða allt þar til Elli kerling herjaði fyrir alvöru á Gulla. Við gátum sem betur fer heiðrað hann fyrir starfið að söngvökunni og síðdegisdansinum svo sem verðugt var. Eitt smáatvik lýsir honum mætavel, en það var þegar við hjónin vildum þakka honum alla hjálpsemina með konfektkassa. Í kaffihléinu á eftir sá ég að Gulli gaf gestum söngvökunnar konfekt og sagði mér á eftir að þannig hefði þessu verið miklu betur varið. Já, þannig var hann Gulli og í síðasta samtalinu sagði Gulli: „Ég kem nú einhvern tímann í heimsókn.“ Af því verður ekki, en í kærri þökk er hann kvaddur. Blessuð sé minning hugþekks drengs.

Helgi Seljan.