Breskur Bristol Bach kórinn mun m.a. flytja lög eftir Benjamin Britten, Michael Tippet, John Tavener, J.S. Bach og Pawel Lukaszewski.
Breskur Bristol Bach kórinn mun m.a. flytja lög eftir Benjamin Britten, Michael Tippet, John Tavener, J.S. Bach og Pawel Lukaszewski. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartannson vilhjalmur@mbl.is Sigurgeir Agnarsson sellóleikari er nýr listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar sem verður haldin í 17. sinn núna um helgina.

Vilhjálmur A. Kjartannson

vilhjalmur@mbl.is

Sigurgeir Agnarsson sellóleikari er nýr listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar sem verður haldin í 17. sinn núna um helgina. Sigurgeir tekur við stjórn hátíðarinnar af Auði Hafsteinsdóttur fiðluleikara, en hún hefur stýrt hátíðinni undanfarin ár.

„Það er krefjandi að taka við stjórnun Reykholtshátíðarinnar enda hefur hún fest sig í sessi sem einn af fastapunktum í flóru hins íslenska tónlistarsumars,“ segir Sigurgeir en að hans sögn verður dagskrá hátíðarinnar glæsileg að vanda en í ár verði lögð áhersla á tónlist fyrir söng. „Reykholtshátíðin hefur alltaf einbeitt sér að kammermúsík og klassískri tónlist en við höfum líka fengið kóra á hátíðina og í ár kemur breskur kór sem nefnist Bristol Bach Choir undir stjórn Christophers Finch. Þau munu m.a. taka lög eftir Benjamin Britten, Michael Tippet, John Tavener, J.S. Bach og Pawel Lukaszewski.“ Tónleikar kórsins spanna því vítt svið.

Klassískt fyrirkomulag

Hátíðin sjálf hefst með tónleikum Bristol Bach Choir á föstudaginn og lýkur á sunnudag þar sem m.a. þau Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari, Ásdís Valdimarsdóttir fiðluleikari og Sigurgeir Agnarsson sellóleikari spila verkið Frá draumi til draums eftir Jón Nordal.

„Dagskrá hátíðarinnar er af klassískum toga og spannar allt frá endurreisnartónlist 16. aldar yfir í strengjakvartettinn Frá draumi til draums sem er frá árinu 1996. Þá verður Gissur Páll Gissurarson ásamt Steinunni Birnu Ragnarsdóttur með söngtónleika á laugardeginum en þau ætla að flytja bæði íslensk og ítölsk lög og sum hver í nýrri útsetningum,“ segir Sigurgeir en Reykholtshátíðin mun heiðra 100 ára afmæli Benjamins Brittens með flutningi á sjaldheyrðu verki eftir hann. „Gissur Páll stígur á svið og syngur nokkrar af þekktustu aríum Verdi í tilefni af 200 ára afmæli hans svo við erum að heiðra merka tónlistarmenn og skáld.“

Sigurgeir segir Reykholtshátíðina hafa fyrir löngu fest sig í sessi og margir komi til að hlýða á fagra tóna á þessari rótgrónu hátíð. „Hér er öll aðstaða mjög góð og kirkjan hljómar vel fyrir tónlist af þessum toga,“ segir Sigurgeir en að hans sögn má vel koma fyrir allt að 250 tónleikagestum. „Við seljum aðeins 200 miða á hverja tónleika en ef ásókn er mikil þá er hæglega hægt að bæta við 50 sætum án mikillar fyrirhafnar.“