´ Fjötraður Hugh Jackman, í hlutverki Jarfa, ræðir við skaðræðiskvendið Viper sem leikkonan Svetlana Khodchenkova leikur í The Wolverine.
´ Fjötraður Hugh Jackman, í hlutverki Jarfa, ræðir við skaðræðiskvendið Viper sem leikkonan Svetlana Khodchenkova leikur í The Wolverine.
Þrjár kvikmyndir verða frumsýndar í dag í bíóhúsum landsins. Gambit Kvikmynd gerð eftir handriti Coen-bræðra, Joels og Ethans í leikstjórn Michaels Hoffmans.

Þrjár kvikmyndir verða frumsýndar í dag í bíóhúsum landsins.

Gambit

Kvikmynd gerð eftir handriti Coen-bræðra, Joels og Ethans í leikstjórn Michaels Hoffmans. Í henni segir af Harry Dean sem starfar fyrir auðugasta mann Englands, Lionel Shahbandar sem þykir bæði sérlundaður og léttgeggjaður og fer illa með undirmenn sína. Harry hefur fengið nóg af kauða og ákveður að hefna sín á honum, svíkja út úr honum fé. Til þess þarf að leiða hann í gildru en gildran sú reynist heldur ótraust. Myndin er endurgerð á kvikmynd með sama nafni frá árinu 1966. Með aðalhlutverk fara Colin Firth, Alan Rickman, Cameron Diaz og Stanley Tucci.

Rotten Tomatoes: 19%

Grown Ups 2

Framhald gamanmyndarinnar Grown Ups frá árinu 2010. Líkt og í henni segir af nokkrum uppátækjasömum æskuvinum og fjölskyldum þeirra. Lenny (Adam Sandler) flytur með fjölskyldu sinni til bæjarins sem hann ólst upp í. Sumarfrí brestur á, skólinn búinn og Lenny hittir á ný æskufélaga sína sem eiga að heita fullorðnir þó þeir hagi sér ekki samkvæmt því. Margt óvænt kemur upp á og á endanum eru það börnin sem þurfa að ala upp foreldra sína en ekki öfugt. Við sögu koma m.a. gömul og ný hrekkjusvín, ölvaðir lögregluþjónar á skíðum og snaróðar, fyrrverandi kærustur. Smábæjarlífið reynist því ekki svo róandi. Leikstjóri er Dennis Dugan og í aðalhlutverkum Adam Sandler, Kevin James, Chris Rock, David Spade, Salma Hayek og Maya Rudolph.

Rotten Tomatoes: 7%

The Wolverine

Enn segir af Wolverine, Jarfa, úr hópi hinna stökkbreyttu X-manna. Í eitt ár hefur Wolverine látið lítið fyrir sér fara í afskekktu fjallaþorpi, syrgir ástvini sína og vill fá að vera í friði. Dag einn kemur japönsk stúlka á hans fund og tekst að fá hann með sér til Japans á fund yfirmanns síns en sá á Jarfa líf sitt að launa. Hann gerir Jarfa allsérstakt og banvænt tilboð. Fyrir þá sem þekkja til kvikmyndanna um X-mennina þá hefst saga þessarar þar sem X-Men: The Last Stand sleppti. Leikstjóri myndarinnar er James Mangold og sem fyrr fer leikarinn Hugh Jackman með hlutverk Jarfa. Í öðrum helstu hlutverkum eru Svetlana Khodchenkova, Tao Okamoto og Will Yun Lee.

Rotten Tomatoes: 67%