24. júlí 1955 Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði var formlega tekið í notkun. Þá var þar rými fyrir 28 gesti. 24. júlí 1956 Vinstri stjórnin, ríkisstjórn undir forsæti Hermanns Jónassonar, tók við völdum. Hún sat í rúm tvö ár.

24. júlí 1955

Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði var formlega tekið í notkun. Þá var þar rými fyrir 28 gesti.

24. júlí 1956

Vinstri stjórnin, ríkisstjórn undir forsæti Hermanns Jónassonar, tók við völdum. Hún sat í rúm tvö ár. Þetta var stjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks. Meðal ráðherranna var Gylfi Þ. Gíslason sem var menntamálaráðherra í öllum ríkisstjórnum til 14. júlí 1971 eða í fimmtán ár.

24. júlí 1972

Tíu ára blaðsöludrengur lokaðist inni í lyftu í Domus Medica í Reykjavík og var ekki bjargað fyrr en eftir sextán tíma. Hann stytti sér stundir með því að lesa Vísi – frá orði til orðs. „Ég var alltaf viss um að einhver kæmi og hleypti mér út,“ sagði drengurinn í samtali við Morgunblaðið.

24. júlí 1982

Leitarmenn á Skeiðarársandi töldu sig hafa fundið gullskipið Het Wapen van Amsterdam, sem fórst árið 1667. Síðar kom í ljós að flakið var af þýskum togara sem strandaði þarna árið 1903.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson