Sigrún Gissurardóttir fæddist í Reykjavík, 17. maí 1937. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 14. júlí 2013.

Útför Sigrúnar fór fram frá Bústaðakirkju 23. júlí 2013.

Það er með miklum hlýhug sem við Guðný minnumst þeirrar góðu konu Sigrúnar Gissurardóttur. Hún háði á síðustu árum hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm en alltaf var bjartsýnin og létta lundin til staðar þegar við hittum hana. Þau hjón Sigrún og Siggi voru afar samrýmd og því eru þau oft nefnd hér í sömu andrá.

Síðasta heimsókn okkar til þeirra hjóna Sigrúnar og Sigga er okkur afar minnisstæð. Við sátum í stofu þeirra niðri á Kirkjusandi og horfðum yfir sundin blá, það er vart hægt að hugsa sér fegurra útsýni á góðum degi. Þarna áttu þau fallegt heimili síðustu árin þar sem gott var að koma. Viðræðurnar snerust að vanda um lífið og tilveruna, ekki síst börnin okkar og barnabörn. Það er sérstök auðlind fólgin í því fólki sem kann að spyrja, Sigrún kunni þetta allt og auðséð var að hún naut þess að fylgjast með því sem aðrir voru að gera. Hún var einkar lagin við það að lífga upp á þá sem við hana ræddu og glögg á gleðihliðarnar. Það var ekki langt í spaugið og fundvís var hún á það jákvæða í fari hvers og eins. Hún ræddi líka um það sem fyrir okkur öllum liggur að lokum, það að deyja. Hún var undir það búin að kveðja og vissi að hverju fór. Þannig var hún, raunsæ á lífið og tilveruna og þakklát fyrir gæfuríka ævi. Það gætu margir af henni lært.

Við nutum þess oft hjónin á fyrri árum að eiga vissan samastað í borginni hjá þeim Sigga og Sigrúnu. Okkur eru sérstaklega minnisstæðar þær móttökur sem við nutum á heimili þeirra, þau voru höfðingjar heim að sækja. Þau hjónin voru dugleg að ferðast á meðan heilsan leyfði, oft lá leið þeirra til útlanda. Á þeim stundum stóð okkur oftar en ekki til boða að dveljast í húsi þeirra í Reykjavík, þess nutum við oft þó svo að okkur þætti nú reyndar skemmtilegra að koma til þeirra þegar þau voru heima. Það voru ekki einungis afnot af húsi, stundum stóð bíll í bílskúrnum sem okkur var frjálst að nota á meðan við dvöldum í höfuðborginni. Þau vildu allt fyrir okkur gera og fyrir það erum við ævarandi þakklát. Það varð okkur því mikið gleðiefni þegar þau Siggi og Sigrún heimsóttu okkur í Hóla fyrir tveimur árum. Það var vor í lofti, þau höfðu lagt land undir fót og ákveðið að skjótast norður til að hitta vini og ættingja. Við áttum góða stund saman og þó svo að heilsan væri farin að bila geislaði Sigrún öll af lífsgleði, enn skildi hún eftir þá bjartsýni og gleði sem einkenndi allt hennar viðmót og beinlínis setti mark sitt á þá sem nálægt henni voru hverju sinni. Slíkt fólk verður manni ógleymanlegt og þannig er það með Sigrúnu Gissurardóttur, hennar verður sárt saknað. Missir og söknuður Sigga og barnanna þeirra, Sísíar og Guðna, er þó mestur. Víst er að minning um ástkæra eiginkonu og móður verður þeim styrkur í sorginni.

Sverrir og Guðný.

Nú er elsku amma mín farin frá okkur og ég sakna hennar mikið. Mér fannst amma og afi eiga að vera eilíf og finnst það enn. Að mínu mati og að ég held margra var amma ein glaðlyndasta manneskja sem ég hef kynnst. Amma sagði alltaf að ég væri ömmuljósið hennar, við öll ömmubörnin hennar vorum ljósin hennar.

Amma hafði alltaf svo góða leið til að útskýra hlutina, hún sagði oft við mig að það væri ekki sorglegt þegar gamalt fólk deyr og hún endurtók það þegar við áttum gott samtal í einrúmi eftir að hún fór á spítalann. Hún sagði líka að það eina sem er víst þegar við fæðumst er að við deyjum á endanum. En sorgin verður ekki umflúin þegar amma er ekki lengur hjá okkur.

Hún var alltaf svo góð, hún gaf og gaf en bjóst aldrei við því að fá neitt til baka. Ég held að flestir sem hafa þekkt hana taki undir með mér og segi að hún hafi alltaf verið í góðu skapi og aldrei hætt að brosa.

Þitt ömmuljós,

Sigurður Þór (Siggi).

Elsku amma, nú hefur þú fengið hvíldina sem þú þráðir og minningar sem þú skilur eftir um þig eru bara góðar og jákvæðar. Þú og afi tókuð alltaf svo fallega á móti okkur, nú er afi bara einn eftir og við vitum að þú vakir yfir honum.

Elsku amma, minningarnar um þig munu lifa í hjarta okkar og við vitum að þér líður vel núna.

Leiddu mig heim í himin þinn

hjartkæri elsku Jesús minn.

Láttu mig engla ljóssins sjá

er líf mitt hverfur jörðu frá.

(Rósa B. Blöndals)

Þín barnabörn,

Sigrún Ása og Arnar Þór.

Elsku amma mín, ég á ennþá erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur. Þú varst og verður alltaf ein fallegasta og yndislegasta manneskja sem ég mun kynnast í gegnum lífið. Þú kenndir mér svo margt og vildir aldrei neitt nema það besta fyrir alla sem á vegi þínum urðu. Það að þú hafir tekið okkur systkinunum, mér og Aroni, opnum örmum frá fyrsta degi er eitt það besta sem fyrir mig hefur komið. Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir að taka okkur sem ömmuljósum og leyfa okkur að njóta þín og þess sem þú gerðir fyrir fólkið þitt. Það var alltaf gott að koma á Kirkjusandinn til ykkar afa, fá Pepsi, köku og spjall um lífið og tilveruna. Ég fór alltaf út með bros á vör eftir að hafa eytt með ykkur góðri stund, heyrt af ykkur fréttir og sagt ykkur hvernig skólinn og allt sem ég tók mér fyrir hendur hefði gengið. Þegar ég fékk fréttirnar af andláti þínu komu þær ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti þar sem þú varst búin að undirbúa okkur öll undir þetta í svolítinn tíma, en samt var ég ekki tilbúin fyrir þær. Ég minnist þín með miklum söknuði í hjarta en á sama tíma er hjartað fullt af minningum um frábæra konu sem gerði mig að betri einstaklingi með nærveru sinni. Ég vona að ég verði einhverntímann á einhvern hátt eins og þú, elsku amma. Mér þykir vænt um þig. Hvíldu í friði.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Þitt ömmuljós,

Lilja Björg.

Elsku amma Sigrún.

Okkur þótti mjög vænt um ömmu okkar og söknum hennar mikið. Hún var alltaf svo góð við okkur eins og alla sem hún þekkti. Hún hjálpaði okkur eins og hún gat og við viljum þakka henni fyrir hvað hún var góð. Við vorum rosalega heppin að eiga svona ömmu, eins og ömmu Sigrúnu.

Við eigum eftir að sakna alls sem hún bakaði fyrir okkur og rjómaíssins sem hún gerði. Söknum hlýja góða faðmsins hennar en geymum allar góðar minningarnar um hana í hjartanu okkar.

Hvíldu í friði, elsku amma Sigrún, og við vonum að þér líði vel.

Magnús Orri og Kristjana Ása.

„Sæll, ég heiti Sigrún. Ert þú maðurinn sem ætlar að giftast dóttur minni?“

Þetta eru fyrstu samskipti mín við ástkæra tengdamóður mína, Sigrúnu Gissurardóttur, sem nú er kvödd í hinsta sinn. Þarna kynntist ég einni mestu sómakonu sem nokkur maður getur kynnst og ekki margir sem geta státað af því að eiga slíka konu sem tengdamömmu.

Þótt ljóst væri, löngu fyrir okkar kynni, að hún hefði um langa hríð átt við mikil veikindi að stríða þá var það ekki eitthvað sem ég tók eftir fyrstu árin. Þvílík hetja, þvílíkur kraftur og þvílíkt æðruleysi sem bjó í þessari yndislegu konu sem ég kveð nú með miklum söknuði, en þó einnig gleði í hjarta vegna þess hve heitt hún hefur þráð þessa hvíld sem herrann okkar hefur nú veitt henni. Sigrún var ekki bara góð „tengdó“ heldur frábær móðir minnar elskulegu konu og besta amma sem hægt er að hugsa sér. Það verður þung raun fyrir börnin mín, „ömmuljósin“, að yfirstíga það að geta ekki lagst í hennar hlýja og örugga faðm sem veitti þeim svo mikla ánægju og ást. Hún var alltaf tilbúin að gera allt sem í hennar valdi stóð til að veita þeim þá ást og hlýju og vera sú góða amma sem hvert mannsbarn vildi fá að njóta á sínum uppvaxtarárum.

Betri tengdamömmu var ekki hægt að hugsa sér og ég lít á það sem forréttindi að hafa þó fengið þessi 11 ár sem ég þekkti hana. Hún hefur kennt mér betur en margur annar að meta það sem lífið gefur okkur og þakka fyrir hvern dag sem við eigum með okkar nánasta fólki. Hún hefur kennt mér að náungakærleikurinn gefur manni meira en eiginhagsmunapotið sem hefur verið of ríkjandi í okkar þjóðfélagi. Þar var Sigrún á heimavelli. Henni var mikið í mun að hennar fólki liði vel og lagði sig fram við að gera öllum sínum nánustu lífið eins kærleiksríkt og kostur var þótt það kostaði hana meira en heilsa hennar hafði bolmagn í. Henni var annt um alla og mátti ekkert aumt sjá. Umhyggjusamari konu er vart hægt að finna.

Ég gæti haldið endalaust áfram að tala um kosti þessarar yndislegu konu sem nú er kvödd í hinsta sinn en kýs að halda þeim minningum fyrir mig og mitt fólk.

Elsku Siggi, Guðni, Sísí, Gulla, barnabörn og aðrir aðstandendur. Ég bið góðan guð að styrkja ykkur í þeirri miklu sorg sem þið glímið nú við. En minningin um elskulega eiginkonu, mömmu, tengdamömmu og ömmu lifir í hjörtum okkar og er eitthvað sem við varðveitum um ókomna tíð.

Hvíl í friði elsku, Sigrún Gissurardóttir.

Lárus Ingi Magnússon.

Nú, þegar Sigrún frænka mín hefur lokið sinni jarðvist, leita góðar minningar á hugann. Nokkrar af mínum fyrstu bernskuminningum tengjast henni. Reyndar er Siggi oft hluti af þeim líka, enda voru þau svo einstaklega samrýmd hjón alla tíð. Sigrún minntist stundum á það að ég hefði fengið að vera viðstödd brúðkaup þeirra, en þá var ég á þriðja ári. Litla stúlkan sem þarna horfði full aðdáunar á athöfnina, átti eftir að taka þessi hjón sér til fyrirmyndar alla tíð.

Við bjuggum framan af í sama húsinu á Kjartansgötunni ásamt Gissuri afa og Sigþrúði ömmu. Mér fannst alltaf spennandi að fá að kíkja í heimsókn inn til Sigrúnar og Sigga. Ein af þeim myndum sem koma upp í hugann er af Sigrúnu þar sem hún var að búa sig fyrir grímuball. Hún var í síðum kjól sem var alsettur litlum pökkum. Nú finnst mér þessir pakkar vera táknrænir fyrir allar þær góðu gjafir sem Sigrún valdi af smekkvísi og gaf við ýmis tilefni.

Gjafirnar hennar Sigrúnar voru ekki bara af efnislegum toga. Hún fylgdist alltaf vel með okkur frændsystkinunum og lét sér annt um okkur. Ég fór alltaf ríkari af hennar fundi. Sigrún var dugleg að hrósa og lét okkur óspart vita þegar við tókum okkur eitthvað fyrir hendur sem hún var stolt af. Stoltust held ég samt að hún geti verið af börnunum sínum, þeim Sísí og Guðna Þór og fjölskyldum þeirra, sem hún hlúði svo vel að. Sigrún mundi eftir afmælisdögunum okkar frændsystkinanna og það var ljúft að fá símhringingu frá henni með hamingjuóskum. Fésbókin var eins og sniðin fyrir frænku, því þar gat hún fylgst með því sem við vorum að bralla og miðlað fréttum af sjálfri sér. Síðasta færslan hennar var aðeins nokkrum dögum fyrir andlátið.

Elskuleg frænka mín tókst á við margvísleg veikindi í gegnum tíðina, en hélt alltaf reisn sinni. Viðhorf hennar var alltaf jákvætt, þrátt fyrir miklar þjáningar. Eftir að hún greindist fyrst með krabbamein fyrir 20 árum, leit hún á hvern dag sem bónus. Hún var þó hvíldinni fegin og óttaðist ekki viðskilnaðinn við þetta tilverustig. Ég þakka frænku minni fyrir samfylgdina og er þess fullviss að hún vakir ennþá yfir velferð allra þeirra sem henni þótti svo vænt um.

Sigríður Lóa Jónsdóttir.